Fyrirtæki og einstaklingar stóðu betur í skilum en nokkru sinni fyrr á faraldurstímum. Greiðsluhraði fyrirtækja og einstaklinga jókst mjög mikið milli áranna 2020 og 2021 og hefur aldrei verið betri. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu kröfustýringar- og innheimtufyrirtækisins Motus um lykiltölur sveitarfélaga árið 2022.

Greiðsluhraði er mælikvarði sem Motus notar til að greina þróun innheimtu. Mælikvarðinn byggir á öllum stofnuðum kröfum hvers viðskiptavinar og er greiðsluhraði mældur út frá því hversu hratt kröfur greiðast, það er hversu hátt hlutfall stofnaðra krafna er greitt á tilteknum tímapunktum. Eftir því sem hlutfallið hækkar eykst greiðsluhraði og er því jákvætt að greiðsluhraði sé mikill. Greiðsluhraði er byggður á gögnum um það bil 400 viðskiptavina Motus, sem sótt voru í kröfupott í september. Á fyrri helmingi ársins 2022 voru stofnaðar rúmlega 6,7 milljónir krafna og upphæð þeirra var um 385,4 milljarðar.

Áhyggjurnar urðu ekki að veruleika

Þorsteinn Júlíus Árnason, vörustjóri innheimtu hjá Motus, segir að í upphafi faraldurs hafi Motus, eins og aðrir, haft áhyggjur af því að efnahagslegur samdráttur vegna Covid myndi þýða að greiðendur ættu í meiri erfiðleikum með að standa í skilum en áður. Raunin hafi þó sem betur fer verið allt önnur. Þegar horft sé í baksýnisspegilinn komi þessi þróun þó ekki jafn mikið á óvart og hún gerði í fyrstu.

„Þessi niðurstaða er í takt við það sem fram hefur komið frá greiningardeildum bankanna og Seðlabankanum um að sparnaður landsmanna hafi aukist eftir að faraldurinn skall á, þar sem einkaneysla dróst saman. Fólk gat meðal annars ekki farið í utanlandsferðir og margir hverjir höfðu því meira milli handanna. Það leiddi svo til þess að greiðsluhraði jókst.“ Jafnframt hafi lágt vaxtastig eflaust orðið til þess að margir einstaklingar hafi endurfjármagnað íbúðalán sín á hagstæðari kjörum og haft meira á milli handanna fyrir vikið.

Nánar er rætt við Þorstein í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins sem kom út í morgun.