Kópavogsbær hefur gert samning við atvinnuleitarmiðilinn Alfreð um að auglýsa öll laus störf þar ásamt því að taka við starfsumsóknum í gegnum ráðningarkerfi Alfreðs. Einnig munu Kópavogsbær og Alfreð taka höndum saman við þróunarvinnu á hugbúnaðinum þar sem smíðaðar verða meðal annars tengingar við bæði mannauðs- og skjalakerfi sveitarfélagsins. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Alfreð.
„Allt frá stofnun Alfreðs þá höfum við leitast við að efla hugbúnaðinn svo að hann henti sem flestum einstaklingum og fyrirtækjum. Með þessum samningi við Kópavogsbæ gefst tækifæri til þess og hlökkum við til að þróa Alfreð og bæta við fleiri lausnum sem munu hjálpa til við að einfalda ráðningarferlið enn frekar,“ er haft eftir Helga Pjetri Jóhannssyni, framkvæmdastjóra Alfreðs.
Ingimar Þór Friðriksson, forstöðumaður upplýsingatæknideildar Kópavogsbæjar, segir reynslu bæjarstarfsmanna af miðlinum góða. „Reynsla starfsmanna okkar af auglýsingamiðli Alfreðs hefur verið mjög góð og það skemmdi ekki fyrir þegar farið var í að skoða nútímalegt ráðningarkerfi. Starfsmenn Alfreðs hafa greinilega gott vald á þróun hugbúnaðar og lausnirnar eru bæði einfaldar og skilvirkar. Við hlökkum til að eiga í góðu samstarfi við Alfreð um aðlaganir á ráðningarlausninni fyrir stóra vinnustaði eins og Kópavogsbæ, án þess að eyðileggja þann einfaldleika sem einkennir lausnirnar í dag.“