Íslandsbanki hefur hækkað fasta vexti fjórum sinnum það sem af er ári án sérstakrar tilkynningar á vef sínum eða annarsstaðar eins og tíðkast með þá breytilegu.

Bankinn segir aðeins greint frá breytingum sem hafa áhrif á núverandi viðskiptavini, en ávallt megi sjá alla gildandi vexti í vaxtatöflu. Þó er greint frá breytingum á föstum vöxtum, séu þær ákveðnar á sama tíma og á þeim breytilegu. Þess má geta í þessu samhengi að tilkynntar vaxtahækkanir taka almennt ekki gildi fyrr en nokkrum dögum síðar, en eðli máls samkvæmt er enginn slíkur frestur þegar ekki er tilkynnt um breytingar.

Sjá einnig: Einkabankarnir feimnir með vaxtahækkanir

Fyrsta hækkunin var á föstum óverðtryggðum vöxtum um 0,45% (45 punkta) í byrjun febrúar og aftur um 85 til þriggja ára og 70 til fimm ára í lok mars. Í millitíðinni var hins vegar sagt frá hækkun annarra vaxta og kom þá fram í sömu tilkynningu að „engar breytingar [yrðu] á föstum vöxtum óverðtryggðra húsnæðislána“.

Þeir höfðu því þegar hækkað úr 4,85 og 5,5% í ársbyrjun í 6,15 og 6,65% þegar fyrst var sagt frá hækkun fastra óverðtryggðra vaxta þann 18. maí. Hvorki kom þó fram við það tilefni frekar en önnur hverjir þeir hefðu verið fyrir, né hverjir þeir yrðu eftir, en Íslandsbanki sker sig úr meðal viðskiptabankanna að því leyti.

Úr lægstu vöxtum sögunnar í þá hæstu á markaðnum á innan við mánuði

Snemma í þessum mánuði voru svo fastir verðtryggðir vextir – þá 1,35% og líkast til þeir lægstu í Íslandssögunni – hækkaðir um 55 punkta, og nú um mánaðarmótin tók gildi 40 punkta hækkun því til viðbótar, sem tilkynnt var um samhliða hækkun annarra vaxta í kjölfar síðustu stýrivaxtahækkunar.

Hafa fastir verðtryggðir vextir því hækkað um 95 punkta á innan við mánuði, og með því farið úr þeim lægstu á markaðnum í þá hæstu. Skömmu fyrir þá hækkun höfðu fastir óverðtryggðir vextir einnig enn einu sinni verið hækkaðir án tilkynningar, nú um 30 punkta til 3 ára og 55 punkta til 5 ára.

Í svari bankans við fyrirspurn um stefnu og verklag við tilkynningar um breytingar á útlánavöxtum íbúðalána kemur fram að viðskiptavinum með lán á breytilegum vöxtum séu sendar tilkynningar þegar vextir þeirra breytist. Bankinn birti einnig fréttir á vef sínum um breytingar á útlánavöxtum „sem hafa áhrif á núverandi viðskiptavini, eins og breytilegir vextir“. Varðandi aðrar vaxtabreytingar er vísað í vaxtatöflu bankans þar sem finna megi núgildandi vexti og gildistökudagur sé tilgreindur.

Fréttinn er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.