Íslenska líftæknilyfjafyrirtækið Alvotech tapaði 275 milljónum dala, eða sem nemur hátt í 38 milljörðum króna, á fyrstu níu mánuðum ársins samkvæmt uppgjöri sem félagið birti í gær. Til samanburðar nam tap Alvotech á fyrstu sex mánuðum ársins 87 milljónum dala.

Heildarsölutekjur fyrstu níu mánuði ársins jukust í 29,8 milljónir dollara, eða yfir 4 milljarða króna, samanborið við 11,1 milljón dollara á sama tímabili í fyrra. Tekjurnar voru vegna sölu á AVT02 í Evrópu og í Kanada. Áfangatekjur og aðrar tekjur voru 8,2 milljónir dollara á fyrstu níu mánuðum ársins.

Rannsóknar og þróunarkostnaður var 152,8 milljónir dollara á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 133,1 milljón dollara á sama tímabili í fyrra.

Stjórnunarkostnaður nam 58,6 milljónum dollara á fyrstu níu mánuðum ársins, samanborið við 156,5 milljónir dollara á sama tímabili í fyrra. Alvotech rekur lægri stjórnunarkostnað einkum til kostnaðar við skráningu félagsins á markað á síðasta ári og minni útgjalda vegna lögfræðikostnaðar á sviði einkaleyfismála. Á móti hafi almennur stjórnunarkostnaður hækkað um 9,3 milljónir dollara vegna kostnaðarliða sem rekja má til þess að fyrirtækið er nú skráð á hlutabréfafmarkað.

Þann 30. september sl. átti Alvotech 68,3 milljónir dollara, eða yfir 9 milljarða króna, í lausu fé, að undanskildum 25,2 milljónum dala í bundnu fé.

Auk uppgjörsins birti Alvotech upplýsingar um helstu áfanga á liðnum ársfjórðungi. Þá kynnti félagið í morgun jákvæðar niðurstöður úr rannsókn á lyfjahvörfum AVT05, fyrirhugaðri líftæknilyfjahliðstæðu við Simponi og Simponi Aria.

„Við höldum áfram að fagna markaðsforskoti AVT04, fyrstu líftæknilyfjahliðstæðunni við Stelara. Lyfið var fyrsta ustekinumab hliðstæðan sem hlaut markaðsleyfi Japan og Kanada og sú fyrsta sem Lyfjastofnun Evrópu mælir með að verði veitt markaðsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu. Við hlökkum til að vera bráðum með tvö lyf á markaði. Þá náðum við mikilvægum áfanga með samkomulagi um þróun og framleiðslu AVT23, hliðstæðu við Xolair, en klínískar rannsóknir á sjúklingum með lyfið eru þegar hafnar,“ sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech.

„Verði jákvæð niðurstaða af úttekt FDA á framleiðsluaðstöðu okkar á Íslandi, sem gert er ráð fyrir að fari fram í janúar 2024, ætti markaðsleyfi fyrir AVT02 í Bandaríkjunum að geta verið í höfn fyrir lok febrúar. AVT02 gæti þá orðið fyrsta líftæknilyfjahliðstæðan við Humira í Bandaríkjunum í háum styrkleika sem er með útskiptileika. Jákvæð niðurstaða úttektarinnar ætti einnig að geta leitt til markaðsleyfis fyrir AVT04 í Bandaríkjunum í lok apríl, töluvert áður en sala lyfsins getur hafist, sem er í febrúar 2025.“

Hlutabréfaverð Alvotech hefur lækkað um meira en 2,5% í 140 milljóna króna veltu það sem af er degi. Gengi hlutabréfa félagsins stendur nú í 1.325 krónum á hlut.