Málmleitarfyrirtækið Amaroq Minerals, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænland, hefur lokið hlutafjárútboði upp á 44 milljónir punda eða sem nemur 7,6 milljörðum króna. Nýju hlutirnir nema tæplega 19% af útgefnu hlutafé félagsins eftir hlutafjáraukninguna, að því er segir í tilkynningu Amaroq til Kauphallarinnar í morgun.

Félagið tilkynnti á sunnudagskvöld um að það væri í ferli við að kanna áhuga fjárfesta á þátttöku í hlutafjáraukningu sem nemur um 5,2 milljörðum íslenskra króna.

Nú liggur fyrir að útboðið var um 2,4 milljörðum króna umfram það sem félagið stefndi upphaflega að en eftirspurn í hlutafjárútboðinu var rúmlega tvöföld.

„Söluandvirði útboðsins, umfram áður fyrirhugaða 5,2 milljarða, verður varið í frekari rannsóknir á eignum félagsins í Vagar og Nanoq, sem og í aukið fjármagn fyrir verkefni félagsins í Gardaq.“

Alls verður 62.724.758 nýjum hlutum úthlutað til núverandi og nýrra hluthafa, á genginu 127 krónur á hlut, eða 74 pence samkvæmt dagslokagengi á föstudaginn síðasta.

„Ég vil þakka öllum hluthöfum sem tóku þátt fyrir þann mikla stuðning sem þeir veittu félaginu í þessari fjármögnun. Þá var sérstaklega ánægjulegt að sjá mikla eftirspurn frá norrænum lífeyrissjóðum. Söluandvirði útboðsins gerir okkur kleift að hraða námuvinnslu í Nalunaq, og að auki að flýta fyrir frekari rannsóknum þvert á safn okkar í gulli og verðmætum málmum á Suður-Grænlandi,“ segir Eldur Ólafsson, forstjóri Amaroq.

„Við höfum trú á því að markmiðum okkar í Nalunaq námunni verði náð og að möguleikar okkar á að skila virði fyrir hluthafa og samfélagið á Grænlandi aukist, og ég hlakka til að skýra frá framgangi og nánari tímasetningum Nalunaq verkefnisins síðar á þessu ári.“

Landsbankinn og Fossar fjárfestingarbanki voru sameiginlegir söluráðgjafar með útboðinu á Íslandi og Landsbankinn sölutryggði einnig útboðið að hluta. Stifel Nicolaus Europe Limited („Stifel“) var ráðgjafi og söluaðili í Bretlandi. Stifel kemur einnig fram sem umsjónaraðili félagsins með söluferlinu.