Alvotech kynnti í dag jákvæðar niðurstöður úr rannsókn á lyfjahvörfum AVT04, sem er líftæknilyfjahliðstæða á þróunarstigi við Stelara (ustekinumab), sem er ætlað til meðferðar við ónæmismiðluðum sjúkdómum á borð við psoriasis liðagigt, skellupsoriasis, Chrons sjúkdómnum og sáraristilbólgu.

Á síðasta ári voru áætlaðar tekjur af sölu Stelara nærri 1.200 milljarðar króna eða um 9 milljarðar Bandaríkjadala. Var það því eitt af mest seldu líftæknilyfjum heims.

Í rannsókninni AVT04-GL-101, sem fór fram í Ástralíu og á Nýja Sjálandi með þátttöku 294 heilbrigðra fullorðinna sjálfboðaliða, voru borin saman lyfjahvörf í þremur hópum sem fengu 45 mg/0.5mL skammt undir húð af AVT04 eða Stelara frá bandarískum og evrópskum mörkuðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lyfjahvörf, öryggi, þolanleiki og ónæmingarverkun eru jafngild fyrir AVT04 og samanburðarlyfið, samkvæmt tilkynningu Alvotech.

Sjá einnig: Alvotech setur fyrsta lyfið á markað í Evrópu

Ustekinumab er einstofna mótefni (að öllu leyti manna IgG1) sem hamlar virkni frumuboðefnanna interleukin-12 og interleukin-23.

Sjá einnig: Alvotech á markað fyrir lok júní

Teva Pharmaceuticals er samstarfsaðili Alvotech við markaðssetningu AVT04 í Bandaríkjunum. STADA er samstarfsaðili Alvotech við markaðssetningu AVT04 í Evrópu.

„Við erum afar ánægð með framgang verkefna okkar á sviði líftæknilyfjahliðstæða,“ sagði Róbert Wessman , stofnandi og stjórnarformaður Alvotech. „Þessi góði árangur staðfestir enn skilvirkni þeirrar einstöku sérhæfðu aðstöðu til þróunar og framleiðslu líftæknilyfjahliðstæða sem við höfum byggt upp.“

Joseph McClellan, þróunarstjóri Alvotech,:

„Jákvæð niðurstaða úr lyfjahvarfarannsókninni á AVT04 er okkur gleðiefni og sýnir góða framvindu í verkefnum Alvotech. Við gerum jafnframt ráð fyrir því að geta kynnt niðurstöður úr staðfestingarrannsókn okkar á öryggi og virkni AVT04 fyrir lok annars ársfjórðungs.“

Auk AVT04 er Alvotech að vinna að þróun sjö annarra líftæknilyfjahliðstæða. Af þeim hefur eitt, AVT02, líftæknihliðstæðulyf við Humira hlotið samþykkt markaðsleyfi í ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins, Sviss, Bretlandi og Kanada.