Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 0,4% í janúarmánuði, samanborið við 0,5% hækkun í desember síðastliðnum. Húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 5,4% á síðastliðnum tólf mánuðum.

Í frétt á vef HMS kemur fram að vísitalan hafi á ársgrundvelli lækkað um 1,2 prósent að raunvirði, þar sem nafnverðshækkun hennar hefur verið undir verðbólgu. Þetta er í tíunda mánuðinn í röð þar sem árshækkun vísitölunnar hefur ekki haldið í við almennar verðhækkanir.

Mynd tekin úr frétt á vef HMS.

Sérbýlishluti vísitölunnar hækkaði um 0,1% á milli mánaða. Ársbreyting á sérbýlishlutanum mældist jákvæð um 8,3% í janúar en til samanburðar var hún jákvæð um 7,5% í desember.

Verð á fjölbýli hækkaði um 0,4% í janúar samanborið við lítillega lækkun í desember. Árshækkun fjölbýlishlutans mælist nú 4,6% samanborið við 3,8% í janúar.