Breska netverslunin Asos stefnir á skráningu á aðalmarkað kauphallarinnar í London, en fyrirtækið hefur verið skráð á hliðarmarkaði hennar, Alternative Investment Market (AIM), frá árinu 2001. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Asos hefur verið eitt af stærstu fyrirtækjunum á AIM markaðnum, en fyrirtækið stefnir á að færa sig yfir á aðalmarkað fyrir lok febrúarmánaðar til að laða að fleiri fjárfesta.

Sjá einnig: Hagnaður Asos eykst um 275%

Fyrr á árinu var tilkynnt um að Asos myndi kaupa vörumerkin Topshop, Topman og Miss Selfridge úr þrotabúi Arcadia veldis Philip Green fyrir 330 milljónir punda en verslanir fatamerkjanna voru ekki innifaldar í kaupunum. Sala á Topshop vörumerkjunum hefur aukist um 200% á milli ára.

Gengi hlutabréfa Asos hefur hækkað um 18% í vikunni, þar af 12% í gær.