Atvinnudagar HÍ hófust í dag en þar gefst nemendum og öðrum tækifæri til að spjalla við frumkvöðla, læra fyrstu skrefin í fjárfestingum, fara í skoðunarferð á Keflavíkurflugvöll og kynna sér ýmis atvinnutækifæri.
Þetta er í níunda sinn sem viðburðurinn er haldinn og verður dagskrá fyrir þátttakendur út vikuna. Opnunarviðburður Atvinnudaga HÍ var einnig haldinn í samstarfi við Vísindagarða HÍ og KLAK Icelandic Startups.
Jónína Ó. Kárdal, verkefnisstjóri Tengslatorgs HÍ, segir að fyrsti dagurinn hafi gengið frábærlega og mættu margir nemendur til að kynnast betur hvað felst í nýsköpun.
„Þetta er frábær byrjun á Atvinnudögum HÍ þar sem stúdentar komu til að kynna sér betur hvað felist í nýsköpun. Stúdentar fengu góða innsýn í það stuðningsnet sem er til staðar bæði innan og utan HÍ þannig að þeir geti séð og heyrt hvernig hægt er að skapa sér tækifæri í nýsköpunarsenunni,“ segir Jónína.
Jón Atli Benediktsson, rektor HÍ, flutti ávarp og voru síðan haldnar kynningar frá Vísindagörðum, KLAK Icelandic Startups og Nýsköpunarsjóði námsmanna frá Rannís sem styður við frumkvöðla.
Viðburðir Atvinnudaga munu einnig teygja sig út fyrir veggi háskólans en boðið verður upp á skoðunarferð um starfsstöðvar Isavia og Mace, bresks bygginga- og ráðgjafarfyrirtækis, á Keflavíkurflugvelli auk þess sem árlegir Framadagar AIESEC, alþjóðlegra ungmennasamtaka, verða haldnir í Háskólanum í Reykjavík.