Skráð atvinnuleysi í nóvember var 3,4%, samanborið við 3,3% á sama tíma í fyrra, og hækkaði úr 3,2% í október síðastliðnum. Skráð atvinnuleysi var síðast hærra í mars 2023. Í mánaðarlegri skýrslu sinni spáir Vinnumálastofnun því að atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 3,3% til 3,6% í desember.

Að meðaltali voru 6.526 atvinnulausir í nóvember, 3.741 karl og 2.785 konur. Að meðaltali fjölgaði atvinnulausum um 516 frá október. Atvinnuleysi hækkaði alls staðar á landinu frá október.

Atvinnuleysi var mest á Suðurnesjum í nóvember eða 5,3% og hækkaði úr 4,8% frá október. Minnst var atvinnuleysi á Norðurlandi vestra 1,4%, á Austurlandi 2,3% og eins 2,3% á Vesturlandi.

Alls komu inn 182 ný störf sem auglýst voru í vinnumiðlun hjá Vinnumálastofnun í nóvember.

Þróun skráðs atvinnuleysis undanfarin tvö ár. Mynd tekin úr skýrslu Vinnumálastofnunar.