Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) leggst með afdráttarlausum hætti gegn frumvarpi fjármálaráðherra um 50% lækkun á áfengisgjaldinu fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum, þ.e. til minni brugghúsa.

Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins (ÁTVR) leggst með afdráttarlausum hætti gegn frumvarpi fjármálaráðherra um 50% lækkun á áfengisgjaldinu fyrir tiltekið magn áfengra drykkja sem framleiddir eru af litlum og sjálfstæðum framleiðendum, þ.e. til minni brugghúsa.

„Lækkun útsöluverðs á áfengi leiðir samkvæmt rannsóknum til aukinnar neyslu áfengis og þar með aukins samfélagslegs skaða. Minnt er á að áfengi er ein af fáum söluvörum þar sem rannsóknir hafa sýnt að sterkt samband er á milli heildarneyslu og þess skaða sem neyslan veldur í samfélaginu – þegar neyslan vex þá eykst skaðsemin,“ segir í umsögn ÁTVR sem forstjórinn Ívar J. Arndal skrifar undir.

Frumvarpið felur í sér að minni brugghús sem flokkast sem litlir og sjálfstæðir framleiðendur, fá 50% afslátt af áfengisgjaldinu upp að 550.000 sentilítrum af hreinum vínanda á hverju almanaksári fyrir hvern framleiðanda. Um er að ræða það magn sem áfengisgjald reiknast af og samsvarar það um 200 þúsund lítrum af bjór miðað við 5% alkóhólstyrkleika.

Telja tekjutap ríkisins verulega vanmetið

Í greinargerð frumvarpsins segir að gert sé ráð fyrir að lækkun áfengisgjalds hjá litlum framleiðendum leiði til tekjutaps fyrir ríkissjóð sem nemur tæpum tæplega 200 milljónum króna hvað innlenda framleiðslu varðar. Auk þess bætist við tekjutap vegna innflutts bjórs en fjármálaráðuneytið taldi ekki unnt að leggja nákvæmt mat á stærð hinna erlendu framleiðenda.

ÁTVR telur að ráðuneytið vanáætli tekjutap ríkissjóðs vegna lægri áfengisgjalda. Jafnframt segir ríkisfyrirtæki að áhrif frumvarpsins á afkomu ÁTVR séu ekki metin.

Samkvæmt lauslegum útreikningum ÁTVR gæti hver framleiðandi sem fellur undir skilyrði frumvarpsins fengið afslátt af um 740 þúsund 330 ml. dósum af 4,5% bjór, eða samtals um 245 þúsund lítra. ÁTVR áætlar miðað við veltutölur hjá sér að allt að 24 framleiðendur sem eru í viðskiptum við sig uppfylli skilyrðin

„Ef þessir 24 framleiðendur nýttu afsláttarheimildina að fullu yrði afsláttur áfengisgjalda um 940 milljónir.“

Hvað varðar áhrif á afkomu ÁTVR minnir ríkisverslunin á að samkvæmt lögum er 18% álagning hjá vínbúðinni á áfengi með 22% eða lægra hlutfall af vínanda að rúmmáli.

„Að því gefnu að lækkun á áfengisgjaldi skili sér að fullu til lækkunar á útsöluverði í Vínbúðunum yrði ÁTVR af allt að 165 milljónum króna í formi álagningar auk þess sem tekjur vegna virðisaukaskatts myndu lækka um allt að 120 milljónir króna.“

ÁTVR segist auk þess telja nauðsynlegt að greina áhrif frumvarpsins út frá lýðheilsu og neyslu einstaklinga. Ívar fjallar í umsögninni um samband heildarneyslu og samfélagslegs skaða. Hann lætur 80 blaðsíðna skýrsluna No Place for Cheap Alcohol, sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) gaf út í fyrra, fylgja með umsögn ÁTVR.