Albert Þór Jónsson, sjálfstætt starfandi fjárfestingarráðgjafi og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum, segir mikilvægt að taka stefnumótandi ákvarðanir um að hefja framkvæmdir á nýjum alþjóðlegum knattspyrnuleikvangi sem fyrst.
Að hans mati er ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðlegur knattspyrnuleikvangur rísi í Kópavogsdal með aðkomu lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta. Hann segir tækifærin og tekjumöguleikarnir óendanlegir ef stefna og framtíðarsýn er skýr í íslenskri knattspyrnu.
„Innviðafjárfestingar eru mikilvægar og auka þær samkeppnishæfni og styðja við hagvöxt með meiri framleiðni og fjölgun atvinnutækifæra. Þess utan styðja þær við lífskjör og lífsgæði til framtíðar,” skrifar Albert í Morgunblaðið í dag.
Albert Þór Jónsson, sjálfstætt starfandi fjárfestingarráðgjafi og stjórnarmaður í Almenna lífeyrissjóðnum, segir mikilvægt að taka stefnumótandi ákvarðanir um að hefja framkvæmdir á nýjum alþjóðlegum knattspyrnuleikvangi sem fyrst.
Að hans mati er ekkert því til fyrirstöðu að alþjóðlegur knattspyrnuleikvangur rísi í Kópavogsdal með aðkomu lífeyrissjóða og erlendra fjárfesta. Hann segir tækifærin og tekjumöguleikarnir óendanlegir ef stefna og framtíðarsýn er skýr í íslenskri knattspyrnu.
„Innviðafjárfestingar eru mikilvægar og auka þær samkeppnishæfni og styðja við hagvöxt með meiri framleiðni og fjölgun atvinnutækifæra. Þess utan styðja þær við lífskjör og lífsgæði til framtíðar,” skrifar Albert í Morgunblaðið í dag.
Kostnaður um 5 til 7 milljarðar
Að hans mati er upplagt að ráðast sem allra fyrst í að byggja nýjan alþjóðlegan knattspyrnuleikvang sem uppfyllir allar ströngustu kröfur UEFA um lýsingu og aðbúnað til að spila landsleiki, Evrópuleiki og leiki í Meistaradeild Evrópu.
„Góðar hugmyndir hafa komið fram í því samhengi og þar á meðal hugmyndin um að slíkur leikvangur rísi í Kópavogsdal. Alþjóðlegur knattspyrnuleikvangur yrði hannaður af fremstu arkitektum landsins og tæki enn fremur mið af sjálfbærni, endurnýjanlegri orku og heitu vatni. Ekki er ólíklegt að kostnaður við framkvæmdina liggi á bilinu 5-7 milljarðar króna,“ skrifar Albert.
„Auðvelt er að fjármagna slíkar innviðafjárfestingar með grænni fjármögnun sem bæði lífeyrissjóðir og erlendir fjárfestar væru áhugasamir um. Mikilvægt er að taka stefnumótandi ákvarðanir um að hefja framkvæmdir á nýjum alþjóðlegum knattspyrnuleikvangi fyrir knattspyrnu sem fyrst. Frændur okkar í Færeyjum hafa nú þegar lokið við gerð alþjóðlegs knattspyrnuleikvangs. Nú þarf að hefjast handa og hugsa stórt fyrir Ísland til lengri tíma í þessu mikilvæga máli.“
„Fjárfestingarfyrirtæki reisti Parken“
Albert bendir á að alþjóðlegur knattspyrnuleikvangur sé arðsöm fjárfesting fyrir alla Íslendinga.
„Fjárfestingarfyrirtæki reisti Parken í Kaupmannahöfn 1990 með ábyrgð danska knattspyrnusambandsins um að landsliðið spilaði alla landsleiki næstu 15 árin á leikvanginum. Knattspyrnuliðið FC Kaupmannahöfn keypti síðan Parken 1998 og á nú Parken og skrifstofubyggingar í kring. Þetta gæti verið viðskiptamódelið fyrir Breiðablik, að reisa alþjóðlegan knattspyrnuleikvang í grænu miðjunni í Kópavogsdal.“
Albert rifjar upp gengi kvennaliðs Breiðabliks árið 2021 en liðið varð fyrst íslenskra knattspyrnufélaga til að taka þátt í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu. Spilaði kvennaliðið við lið eins og Real Madrid og PSG.
„Tekjur vegna þátttöku liðsins voru umtalsverðar. Þátttaka íslenskra liða í Evrópukeppnum getur numið umtalsverðum upphæðum ef árangurinn er góður en nú nýverið hefur komið fram að karlalið Breiðabliks hefur tryggt sér umtalsverða fjármuni með góðum árangri í Evrópukeppni,“ skrifar Albert.
„Mikilvægur þáttur í þátttöku liða í slíkum keppnum er að hafa nauðsynlega innviði eins og alþjóðlegan knattspyrnuleikvang og umgjörð eins og flest önnur lönd sem hafa metnað til að ná árangri til lengri tíma. Fámennari þjóðir en Íslendingar hafa margar töluvert betri innviði til þátttöku í Evrópukeppnum en Ísland og þar eru frændur okkar í Færeyjum með töluvert forskot enda hefur uppgangur í knattspyrnu í Færeyjum verið ævintýralegur á undanförnum árum og hafa góðir innviðir leikið stórt hlutverk.“
„Nú þarf að bretta upp ermar og láta verkin tala. Tækifæri og tekjumöguleikar eru óendanleg ef stefna og framtíðarsýn er skýr í íslenskri knattspyrnu. Nú þarf að setja af stað metnaðarfulla áætlun um innviðauppbyggingu á alþjóðlegum skala fyrir Ísland og koma okkur í fremstu röð,“ skrifar Albert að lokum.