Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir að sú ráðstöfun að hækka arðgreiðslu Landsvirkjunar í ár úr 20 milljörðum í 30 milljarða króna sé í samræmi við arðgreiðslustefnu ríkisfyrirtækisins. Þetta kemur fram í svari við spurningum fjárlaganefndar, sem birt var á vef Alþingis í byrjun vikunnar.

Ráðuneytið segir að með hliðsjón af því að rekstur Landsvirkjunar hafi gengið vel að undanförnu og að rekstrarárin 2022 og 2023 voru þau bestu í sögu félagsins hafi fjármálaráðherra lagt fram beiðni til félagsins um að arðgreiðsla ársins yrði hækkuð um 10 milljarða króna. Aðalfundur Landsvirkjunar samþykkti tillöguna í lok apríl.

Fjárlaganefnd Alþingis óskaði á dögunum eftir svörum um á hvaða forsendum ákvörðunin um að hækka arðgreiðslu Landsvirkjunar var tekin.

„Arðgreiðslan er í samræmi við arðgreiðslustefnu og reikniforsendu sem stjórn Landsvirkjunar samþykkti að undangengnu samráði við ráðuneytið sem fer með eigendahlutverk ríkisins gagnvart félaginu,“ segir í minnisblaði fjármálaráðuneytisins.

„Þeirri arðgreiðslustefnu er ætlað að byggja upp fjárhagslegan styrk fyrirtækisins samhliða því að tryggja eigandanum, íslenska ríkinu, eðlilegan arð af eign sinni.“

Aðhald með auknum arðgreiðslum

Fjármálaráðuneytið segir að tekjustofnar og útgjaldaliðir ríkissjóðs hafi mismunandi áhrif á hagkerfið „en í auknum arðgreiðslum til ríkissjóðs felst að öðru óbreyttu aðhald í ríkisfjármálum“.

„Þeim fjármunum er þá ekki ráðstafað í annað, svo sem í rekstur eða fjárfestingar hjá því fyrirtæki sem greiðir arðinn.“

Arðgreiðslur til A1-hluta ríkissjóðs teljast til tekna gagnvart afkomu hans og breytingar á þeim hafa því áhrif á hagsveifluleiðréttra afkomu, sem sé algengur mælikvarði á aðhaldsstig. Óreglulegar arðgreiðslur færist á inn bóginn ekki sem tekjur og hafa þannig ekki áhrif á afkomu ríkissjóðs og þar af leiðandi engin áhrif á mat á aðhaldsstigi ríkissjóðs, að því er segir í minnisblaðinu.