SFF dagurinn fer fram í dag klukkan 15 undir yfirskriftinni Að vaxa með þjóðinni – fjármálaþjónusta á Íslandi í 150 ár en tilefnið er að 150 ár eru liðin frá því að Kristján IX birti tilskipun um hlunnindi fyrir sparisjóði á Íslandi 5. janúar 1874, sem markaði upphafi innlendrar reglusetningar á fjármálamarkaði.

Heiðrún Jónsdóttir, framkvæmdastjóri SFF, segir þetta skemmtilega tilviljun en ýmislegt hafi breyst frá þeim tíma. Breytingarnar hafi verið sérlega hraðar á síðustu árum, bæði hvað varðar regluverk og tækniumhverfið.

„Tilskipunin frá 1874 var um ein blaðsíða, þó fleiri reglur hafi náð yfir fjármálastarfsemi þá, en í dag er áætlað að yfir 15 þúsund blaðsíður af lögum og reglum gildi um fjármálastarfsemi,“ segir Heiðrún.

„Til að tryggja heilbrigt fjármálakerfi þá þurfa að vera til staðar reglur og öll þurfum við að spila eftir þeim. Hvað varðar þróun undanfarinna ára má þó segja að það sé orðin áhætta í hvað reglurnar eru flóknar, bæði fyrir eftirlitsaðilann og fyrirtæki á markaði. Það á ekki bara við um Ísland, önnur og fjölmennari ríki í Evrópu hafa sömu áhyggjur.“

Séríslenskar reglur og auka álögur flækja því fyrir en hér á landi eru þrjár tegundir af viðbótarsköttum á fjármálafyrirtæki. Það feli í sér gríðarlegan kostnað en talið er að viðbótar skattarnir samsvari um 20% af rekstrarkostnaði bankanna.

„Þegar kemur að Íslandi er ákaflega mikilvægt að við séum að spila eftir sambærilegum reglum og eru í nágrannaríkjunum. Við erum því ekki að biðja um afslátt umfram það, bara alls ekki, heldur að keppt sé á jafnréttisgrundvelli. Við höfum bent á að það sé ákveðin hætta á að auknar kvaðir, t.d. með hærri skattlagningu og séríslenskar íþyngjandi reglur í okkar litla hagkerfi, komi niður á samkeppnishæfni fjármálageirans og getu hans til að sinna þörfum heimila og atvinnulífsins.“

Nánar er rætt við Heiðrúnu í sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.