Íslenska netöryggisfyrirtækið AwareGO lauk nýverið 200 milljóna króna fjármögnun. AwareGO hefur verið starfandi frá árinu 2010 og sérhæfir sig í netöryggisfræðslu til fyrirtækja og stofnana um allan heim.

AwareGO hefur samtals tryggt sér 360 milljónir króna fjármögnun á síðastliðnum 15 mánuðum. Eyrir Invest var fyrsti fagfjárfestir fyrirtækisins og hefur stutt það dyggilega frá því í júní 2018. Eyrir er nú stærsti einstaki fjárfestir AwareGO en fjárfestingafélagið hefur alla tíð stutt vel við bakið á íslenskum nýsköpunarfyrirtækjum.

AwareGO hefur þróað og selt eigin hugbúnað sem hámarkar árangur fræðsluherferða til að kenna starfsmönnum að varast netsvik. Fyrirtækjaráðgjöf Kviku var ráðgjafi AwareGO við nýjustu fjármögnunina og hyggst einnig aðstoða félagið á næstu misserum við að sækja hlutafé, hérlendis og erlendis og er undirbúningur að þeirri fjármögnun vel á veg kominn.

„AwareGO hefur verið í mjög miklum vexti síðastliðin þrjú ár með fjölgun viðskiptavina og þróun á nýjum kennsluhugbúnaði sem mun styrkja enn frekar samkeppnisstöðu okkar á alþjóðavísu,“ segir Ragnar Sigurðsson, forstjóri og stofnandi AwareGO.

„Öryggisvitundarmarkaðurinn er í gríðarlegum vexti um allan heim enda sannast það aftur og aftur að við fólkið erum veikasti hlekkurinn í gagnaöryggi. Við erum mjög ánægð með aðkomu Kviku banka en fjármagnið mun nýtast okkur til að styrkja markaðsstöðu AwareGO enn frekar á alþjóðamarkaði.“

Hugbúnaður og fræðsluefni AwareGO hafa hlotið mikið lof frá stærstu viðskiptavinum fyrirtækisins sem eru m.a. Credit Suisse, Barclays, UN Women, General Electric og Nethope auk fjölmargra íslenskra fyrirtækja og stofnana.

Fræðsluefni AwareGO er í auglýsingastíl og fjallar á stuttan og hnyttin hátt um algengustu netöryggishætturnar. Myndböndin eru framleidd með það í huga að fanga athygli starfsfólks og hvetja það til aukinnar árvekni bæði innan og utan vinnustaðarins.

AwareGO hefur í dag um 8 milljónir notenda, aðallega í Evrópu, Bandaríkjunum, Asíu og Ástralíu. Hjá fyrirtækinu starfa nú 15 starfsmenn á Íslandi, Króatíu, Tékklandi og nýverið opnaði fyrirtækið skrifstofu í Bandaríkjunum þar sem stærsti markaðurinn fyrir öryggisvitund (e. security awareness training) er til staðar.

AwareGO vinnur nú að því að koma á samstarfssamningum við stór þjónustufyrirtæki í Bandaríkjunum þar sem þau eiga greiðari leið að viðskiptavinum og geta enn fremur samtvinnað vörur AwareGO inn í sitt öryggisvöruframboð.

Líkt og komið hefur fram í fréttum undanfarna mánuði hafa netþrjótar ítrekað náð að blekkja íslensk fyrirtæki og er helsta leið þeirra að herja á starfsfólk frekar en að reyna að brjóta sér leið í gegnum öflug öryggiskerfi.

Netþrjótar líta á starfsfólk sem veikasta hlekk öryggiskeðjunnar hjá fyrirtækjum og nýta sér velvilja og grandaleysi þeirra á kerfisbundinn hátt. Netglæpir eru orðnir afar vel útfærðir og Íslendingar geta ekki lengur treyst á slaka íslenskukunnáttu netþrjóta.

„Við hvetjum öll fyrirtæki til að huga vel að netöryggismálum, en á síðastliðnum 12 mánuðum er áætlað að íslensk fyrirtæki, stór og smá, hafi tapað nálægt 15 milljörðum króna vegna netsvika,“ segir Ragnar Sigurðsson.