Hagnaður verkfræði- og ráðgjafafélagsins Mannvits jókst um 30,6% á síðasta ári og nam 34,8 milljónum króna, en var 26,6 milljónir árið 2018. Hagnaður fyrir skatt dróst hins vegar saman um 26%, úr 58,4 milljónum í 43,2 milljónir króna..

Tekjur félagsins höfðu þó dregist saman um 4,3% mili ára, úr tæplega 5,3 milljörðum niður í 5 milljarða króna meðan rekstrargjöldin drógust saman um 3,6%, úr 5,2 milljörðum í rétt um 5 milljarða.

Þannig varð rekstrarafkoman (EBIT) neikvæð um 1,3 milljónir, en hagnaðurinn fyrir skatt varð eins og áður segir jákvæður með tvöföldun fjármunatekna úr 22,6 milljónum í 44,5 milljónir króna. EBITDA lækkaði um 46,7% milli ára, úr 97,4 milljónum króna í tæplega 52 milljónum króna.

Eiginfjárhlutfallið stóð í stað í 36,5% þótt bæði skuldir og eigið fé lækkuðu um 13%, það er skuldirnar úr 1,5 milljörðum króna niður í 1,3 milljarða og eigið féð úr tæplega 853 milljónum í rúmlega 742 milljónir króna.

Handbært fé í ársbyrjun nam 280 milljónum króna, en í árslok 163 milljónum, svo lækkunin yfir árið nam 117 milljónum króna, en félagið keypti á árinu eigin hlutabréf fyrir tæplega 133 milljónir króna.

Örn Guðmundsson er framkvæmdastjóri en hann á beint 0,44% í félaginu ásamt 64 öðrum hluthöfum. Þar af eru stærstu eigendurnir félagið M2015 ehf., með 18,75% hlut, Mannvit sjálft með 9,94% og Eggert Aðalsteinsson með 3,36%. Næstu fimm eiga allir 3,30%, það eru þeir Þröstur Helgason, Tryggvi Jónsson, Skapti Valsson, Sigurður Sigurjónsson og Gunnar Sverrir Gunnarsson. Næstur þar á eftir er Valgeir Kjartansson með 3,17%.