Bandaríska fyrirtækið Aptos, sem er sinnir tæknilausnum fyrir verslanir, tilkynnti í dag um undirritun samnings um kaup þeirra á íslenska hugbúnaðarfyrirtækinu LS Retail ehf. Hjá LS Retal starfa 250 starfsmenn, en það mun áfram vera sjálfstæði eining innan samstæðu Aptos, þar sem fyrir starfa 1.250 manns.
LS Retail segir í tilkynningu að félagið standi framarlega á heimsvísu í þróun heildstæðra verslunar- og afgreiðslukerfa fyrir verslanir, hótel, veitingastaði, apótek og bensínstöðvar.Ætlun félaganna er að sameiginlega verði Aptos og LS Retail enn betur í stakk búin til að veita heildstæðar lausnir og þjónustu fyrir breiðari hóp verslana og þjónustufyrirtækja um allan heim.
Goldman Sachs keypti Aptos og hyggja á útrás
Fyrirhuguð kaup Aptos á LS Retail fylgja í kjölfar kaupa Goldman Sachs Merchant Banking Division á Aptos á síðasta ári. Nýtt eignarhald hefur greitt fyrir aukinni fjárfestingu Aptos í nýsköpun og útrás á alþjóðlega markaði. Lausnir LS Retail eru nú seldar og afhentar af samstarfsaðilum LS Retail til yfir 80.000 verslana og veitingstaða í meira en 140 löndum.
Viðskiptavinahópur LS Retail nær til tískuverslanakeðja, raftækjaverslana, húsgagnaverslana, veitingastaða, hótela, kaffihúsa, apóteka og bensínstöðva, svo fátt eitt sé talið. Samsettur viðskiptavinahópur fyrirtækjanna tveggja er sagður vart eiga sér hliðstæðu í þessum geira sé litið til markaðshlutdeildar og reynslu þeirra í að sinna verslun og þjónustu.
LS Retail og Aptos segjast jafnframt ætla að nýta sér reynslu og þekkingu sinna viðskiptavina til halda áfram að þróa lausnir sem mæta síbreytilegum þörfum í viðskiptaumhverfinu. Hugbúnaðarlausnir LS Retail, þar með taldar afgreiðslu-, áætlana- og greiningarlausnir, eru þróaðar með sérþarfir ýmiss konar verslana, veitingastaða og hótela í huga.
Lausnirnar fela m.a. í sér skýrslugerð, greiningar og ráðleggingar til viðskiptavina, auk virkni sem er séraðlöguð hverjum geira fyrir sig. Hugbúnaður LS Retail byggir á tæknilausnum Microsoft og er fáanlegur sem skýjalausnir (Software as a Service).
Stafvæðing brýnni en áður
Forstjóri Aptos, Pete Sinisgalli, segist hlakka til að vinna með stjórnendum LS Retail að hraða enn frekar vexti fyrirtækisins.
„LS Retail er afar vel rekið fyrirtæki með vörur sem eru framúrskarandi á heimsvísu, sinnir fjölbreyttum og sístækkandi hópi viðskiptavina í gegnum net samstarfsaðila sem telja nálægt 400 um heim allan,” segir Sinisgalli.
„Að fá LS Retail inn í Aptos fjölskylduna gerir okkur betur kleift að skila áþreifanlegum ávinningi til viðskiptavina okkar, þar sem það bætir við okkar þekkingu og auðlindir, fjölgar þeim geirum sem við náum til og víkkar út okkar markaðssvæði.“
Magnús Norðdahl fer fyrir stjórnendateymi LS Retail, en hann er forstjóri fyrirtækisins og býr að meira en 30 ára stjórnunarreynslu í hugbúnaðar-, upplýsingatækni-, lyfja- og bankageiranum. Um kaupin segir Magnús heimsfaraldurinn hafi hraðað breytingum í viðskiptaumhverfinu, enda hafi fyrirtæki og muni áfram alltaf þurfa að takast á við breytingar.
„Fyrirtæki þurfa lausnir sem veita þeim þekkingu, innsýn og vissu. Stafvæðing (e. digitalization) er orðin enn brýnni en áður og þörfin fyrir heildstæðar viðskiptalausnir er meira knýjandi en nokkru sinni fyrr. Þarna eru LS Retail og Aptos í fremstu röð, og þessi þróun er tækifæri til að auka markaðshlutdeild fyrirtækjanna og hjálpa fleiri viðskiptavinum um allan heim,“ segir Magnús.
„Það fyllir okkur bjartsýni að Aptos, með sína miklu reynslu hvað varðar umbreytingu í skýjalausnir og samþætta netverslun, hafi valið að fara í samstarf við okkur til að ýta frekar undir vöxt okkar á alþjóðamarkaði. Við erum spennt fyrir þeirri vegferð sem er fram undan, bæði fyrir starfsfólk LS Retail og fyrir okkar einstöku samstarfsaðila um heim allan.“
LS Retail naut ráðgjafar Barclays Investment Bank, White & Case LLP og Réttar-Aðalsteinsson & Partners ehf. við sölu fyrirtækisins. LS Retail er með höfuðstöðvar á Íslandi og skrifstofur í Asíu, Evrópu, Mið-Austurlöndum og Norður Ameríku. Hjá félaginu starfa um 250 manns. Fyrirtækið hefur selt lausnir sínar til yfir 5.000 fyrirtækja í meira en 140 löndum.
Aptos sinnir yfir 1000 viðskiptavinum sem reka yfir 135 þúsund verslanir í yfir 65 löndum. Starfsmenn Aptos eru um 1250 talsins. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Atlanta í Bandaríkjunum, en auk þess er fyrirtækið með skrifstofur í Evrópu og Asíu.