Líftryggingarfélaginu Novis hefur verið bannað tímabundið að gera nýja tryggingarsamninga hér á landi. Ákvörðun um bannið var tekin af Seðlabanka Slóvakíu og gildir á evrópska efnahagssvæðinu að því er fram kemur í tilkynningu frá fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands , en Novis er slóvakískt félag.

Sala á líftryggingum Novis hófst á Íslandi í janúar 2018 og voru um 5.200 með virka líftryggingarsaminga við félagið í lok síðasta árs. Tryggingar og ráðgjöf ehf. hafa séð um að selja tryggingar Novis hér á landi. Fyrirtækið flutti í nýtt og stærra húsnæði á síðasta ári, ekki síst vegna aukinna umsvifa tengt sölu trygginga Novis.

„Umsvif fyrirtækisins hafa aukist ekki síst í kjölfar þess að við tókum að okkur tryggingamiðlun fyrir evrópska tryggingafélagið Novis sem er framsækið félag með starfsemi í ellefu Evrópulöndum. Novis hefur komið inn á markaðinn með miklum látum og býður upp á mjög spennandi tryggingar. Um fjögur þúsund íslenskir viðskiptavinir hafa tryggt sig hjá Novis í gegnum okkur á tæpu einu ári,“ var haft eftir Hákoni Hákonarsyni framkvæmdastjóra Tryggingar og ráðgjafa í frétt Viðskiptablaðsins á síðasta ári.

Fjármálaeftirlitið gerði margvíslegar athugasemdir við sölu og markaðssetningu Trygginga og ráðgjafar á tryggingum Novis hér á landi árið 2018.

Novis var stofnað árið 2014 í Slóvakíu. Félagið er með útibú í Austurríki, Tékkandi og Þýskalandi og þjónustu án starfsstöðvar í Finnlandi, Ítalíu, Íslandi, Litháen, Póllandi, Svíþjóð og Ungverjalandi.