Fjármálaráðuneytið hefur fallist á tillögu Persónuverndar um að falla frá þeim áformum að birta opinberlega kennitölu allra þátttakenda í fyrirhuguðu almennu hlutafjárútboði á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka. Þess í stað verður fæðingardagur einstaklinga birtur við hliðina á nöfnum kaupenda að útboðinu loknu.

„Ráðuneytið telur það ekki muni draga úr gagnsæi svo miklu nemi, að fæðingardagur verði birtur frekar en kennitala þegar um einstaklinga er að ræða. Þannig yrði jafnframt jöfnuð staða erlendra og innlendra einstaklinga, en einungis seinni hópurinn er með kennitölur.“

Þetta kemur fram í minnisblaði sem fjármálaráðuneytið sendi efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis í síðustu viku vegna frumvarps fjármálaráðherra um ráðstöfun eignarhluta í Íslandsbanka.

Líkt og Viðskiptablaðið fjallaði um í mars þá stendur til að birta opinberlega sundurliðaðar upplýsingar um hver og ein viðskipti í hinu fyrirhugaða útboði, þar sem horft verður til þess að sala til einstaklinga hafi forgang.

Væru mögulega ekki að „stíga eitt einasta skref í gagnsæisátt“

Í umsögn Persónuverndar er lagt til að breytingar verði gerðar á frumvarpinu á þá leið að ekki verði birtar upplýsingar um kaupendur að óverulegum eignarhlutum í Íslandsbanka.

Persónuvernd segir að svo umfangsmikil vinnsla persónuupplýsinga sem felst í opinberri birtingu lista yfir alla kaupendur að eignarhluta ríkisins í Íslandsbanka sé ekki nauðsynleg til að ná þeim tilgangi að gæta gagnsæi, jafnræði og upplýsingagjöf til almennings.

Fjármálaráðuneytið segir að erfiðara sé að fallast á þessa tillögu Persónuverndar en með því að einskorða birtingu upplýsinga úr útboðinu við kaupendur að umtalsverðum eignarhlutum væri löggjafinn „mögulega ekki að stíga eitt einasta skref í gagnsæisátt“.

„Líkt og komið hefur fram við vinnslu málsins þá vegast í því hagsmunir sem tengjast persónuvernd og hámörkun verðs annars vegar og hagsmunir sem tengjast gagnsæi og trausti almennings hins vegar. Í frumvarpinu eru síðarnefndu hagsmunirnir taldir vega þyngra.“

Ráðuneytið nefnir í þessu samhengi að sú ákvörðun að ráðast í markaðssett útboð, þ.e. almennt hlutafjárútboð, fremur en sölu með tilboðsfyrirkomulagi, líkt í lokuðu útboði Bankasýslu ríkisins í mars 2022, felist aðallega í því að hægt sé að forgangsraða einstaklingum umfram lögaðila eins og gert var í frumútboði Íslandsbanka.

Markaðssett útboð sé þannig til þess fallið að auka gagnsæi og traust almennings „en þeir hagsmunir eru aftur taldir vega þyngra en að hámarka verð“. Útboðsverð í markaðssettu útboði yrði þó sennilega lægra en í sölu með tilboðsfyrirkomulagi.

Gagnrýnin hafi aðllega snúið að aðila með óverulegan hlut

Ráðuneytið segir fyrirhugaða birtingu upplýsinga um kaupendur ætlað að undirbyggja traust almennings til útboðs á eignarhlutum, m.a. að teknu tilliti til þess sem á undan er gengið við sölu á hlutum í fjármálafyrirtækjum á Íslandi.

Þar sem ákvæði stjórnsýslulaga um sérstakt hæfi muni ekki taka til ráðstafana samkvæmt frumvarpinu telur ráðuneytið tilefni til enn meira gagnsæis en ella.

„Einnig má benda á að sú sala sem helst var gagnrýnd af hálfu þingmanna og fjölmiðla í kjölfar útboðsins sem fram fór í mars 2022 varðaði „óverulegan“ eignarhlut samkvæmt mati umboðsmanns Alþingis, sbr. niðurstöðu embættisins í máli nr. F132/2023,“ segir í minnisblaði fjármálaráðuneytisins.

Er þar vísað í þátttöku Benedikts Sveinssonar, föður Bjarna Benediktssonar þáverandi forsætisráðherra og þáverandi fjármálaráðherra, í umræddu útboði. Benedikt keypti 0,1042% hlut í Íslandsbanka fyrir 54,9 milljónir króna.

Fjármálaráðuneytið rökstyður einnig áformin um birtingu á lista yfir alla kaupendur í fyrirhugaða útboðinu út frá því að hluthafar Íslandsbanka, sem telji tugi þúsunda, geti nálgast hluthafaskrá í bankanum sem sýni alla hluthafa í bankanum hverju sinni.

Þá sé í lögum um fjármálafyrirtæki kveðið á um að nöfn þeirra einstaklinga sem eiga meira en 1% af hlutafé eða stofnfé í fjármálafyrirtæki skuli birt á hverjum tíma og sömuleiðis raunverulegt eignarhald einstaklings eða einstaklinga í gegnum lögaðila.