Fragtflugfélagið Bláfugl hefur sagt upp 11 flugmönnum í hagræðingarskyni. Eftir að uppsagnirnar koma til framkvæmda verða starfsmenn Bláfugls 29 og sjálfstætt starfandi flugmenn 40. Þetta kemur fram í tilkynningu.

Umræddir flugmenn eru meðlimir í Félagi íslenskra atvinnuflugmanna og eru meðal annars íslenskir, danskir, þýskir, belgískir og hollenskir. Þeir eru að því er segir í tilkynningunni „lang-launahæstu“ starfsmenn félagsins.

Þegar hafi verið ráðist í fjölbreyttar aðgerðir á árinu, svo sem fækkun stöðugilda, flutning í hagkvæmara húsnæði og útvistun hluta af starfsemi. Þá hafi aðrir starfsmenn fyrirtækisins tekið á sig tímabundna kjaraskerðingu.

„Þetta eru nauðsynlegar aðgerðir, að segja upp þessum 11 flugmönnum til að tryggja samkeppnishæfni Bláfugls á markaði sem hefur tekið örum breytingum á undanförnum árum. Með  þessari aðgerð tryggjum við samkeppnishæfni Bláfugls til framtíðar og eigum möguleika á að hefja vaxtarskeið – með tilheyrandi fjölgun starfa á Íslandi“, er haft eftir Sigurði Erni Ágústssyni forstjóra Bláfugls, en aðgerðirnar eru ekki sagðar munu koma niður á starfsemi fyrirtækisins.