Bílaleigan Blue Car Rental, sem er staðsett rétt við Keflavíkurflugvöll, velti tæplega 6,2 milljörðum króna árið 2023, sem samsvarar 10,7% aukningu frá árinu 2022 þegar velta félagsins nam 5,6 milljörðum. Félagið hefur áform um að auka sýnileika og styrk vörumerkisins á innlendum mörkuðum á komandi árum, að því er segir í nýbirtum ársreikningi.

Blue Car Rental hagnaðist um 1.168 milljónir króna árið 2023 samanborið við 1.653 milljóna króna hagnað árið áður. Rekstrarhagnaður (EBIT) félagsins nam 2 milljörðum í fyrra samanborið við 2,3 milljarða árið áður.

Draga verulega úr rafbílakaupum

Í skýrslu stjórnar segir að rekstur félagsins hafi gengið vel í fyrra. Áfram hafi verið unnið að aukinni skilvirkni í rekstri með stafrænum lausnum, bættum innkaupum ásamt öflugri tekju- og flotastýringu.

Félagið hefur staðið í mikilli endurnýjun á bílaflota sínum á síðustu misserum. Bílaleigan keypti bifreiðar fyrir 3,7 milljarða króna árið 2023 og fyrir 5,1 milljarð árið 2022 en seldi bifreiðar fyrir tæpa 2 milljarða í fyrra og um 1,1 milljarð árið 2022.

„Sú mikla endurnýjun sem átt hefur sér stað á flota félagsins síðustu ár mun koma sér vel árið 2024, en félagið hyggst draga úr bílakaupum á árinu.

Ástæðan er tvíþætt, annars vegar góð staða flotans eftir mikla endurnýjun síðustu ár og hins vegar lagabreytingar í umhverfi nýorkubíla. Félagið hefur dregið verulega úr áætlunum sínum um aukningu hreinna rafmagnsbíla vegna þessa.“

Félagið lauk á síðasta ári við framkvæmdir á afgreiðslu- og þvottastöð sinni að Blikavöllum 3.

„Sú mikla fjárfesting mun bæta ásýnd og umhverfi BLUE Car Rental við Keflavíkurflugvöll til muna. Áform eru um aukinn sýnileika og styrk vörumerkisins á innlendum mörkuðum á komandi árum.“

Stjórn bílaleigunnar segir að þrátt fyrir áskoranir í ytra umhverfi tengt eldsumbrotum á Reykjanesskaga sé bókunarstaðan inn í árið 2024 með ágætum.

Greiddu út einn milljarð í fyrra

Eignir bílaleigunnar voru bókfærðar á 10,3 milljarða króna í árslok 2023. Þar af var bókfært verð bifreiða 7,6 milljarðar.

Eigið fé nam rúmum 2,4 milljörðum króna í lok síðasta árs. Félagið greiddi út einn milljarð króna í arð í fyrra. Tillaga um arðgreiðslu á árinu 2024 lá ekki fyrir við undirritun á skýrslu stjórnar þann 20 mars síðastliðinn.

Bílaleigan er í 90% eigu M&G Fjárfestinga ehf., sem er í eigu hjónanna Magnúsar Sverris Þorsteinssonar og Guðrúnar Sædal Björgvinsdóttur. Þá á félagið Óskasteinn Þ&E ehf., sem er í eigu Þorsteins Þorsteinssonar og Elísu Óskar Gísladóttur, 10% hlut í Blue Car Rental.