Eldgos á Íslandi eru nú talin með helstu ógnum sem Bretar kunna að standa frammi fyrir. Þetta má sjá á nýju áhættumati sem framkvæmt er á vegum breskra yfirvalda. Íslensk eldgos eru þar efst á lista ásamt flensufaraldri, flóðum og hryðjuverkaárásum. Þá hefur sólstormum einnig verið bætt á listann.
Íslensk eldgos eru ný á þessum lista en hann var síðast gefinn út árið 2010. Eins og flestir muna gaus Eyjafjallajökull árið 2010 og lá flugumferð í kjölfarið niðri víðsvegar um Evrópu. Bretar telja það þó ekki mestu ógnina heldur óttast þeir gos sambærilegt Skaftáreldum í Lakagígum 1783-84. Þá ollu aska og gosgufur mistri og móðu yfir Íslandi sem barst síðan yfir Evrópu, Asíu og Ameríku. Gosið er eitt mannskæðasta eldgos mannkynssögunnar og óttast Bretar greinilega að sagan endurtaki sig.