Hagnaður sjávarútvegsfyritækisins Brim nam 62,9 milljónum evra árið 2023, eða sem nemur 9,4 milljörðum króna á meðalgengi ársins. Árið áður nam hagnaður 79,3 milljónum evra eða um 11,3 milljörðum króna á meðalgengi þess árs.

Rekstrartekjur jukust á fjórða ársfjórðungi samanborið við sama tímabil árið áður en drógust saman á ársgrundvelli. Tekjur ársins 2023 námu 437,2 milljónum evra, eða um 65,2 milljörðum króna, samanborið við 450,9 milljónir evra árið 2022.

Á lokagengi ársins 2023 voru eignir samtals 142,9 milljarðar króna, skuldir 71,8 milljarðar og eigið fé 71,1 milljarðar. Eiginfjárhlutfall styrktist, var 50% í lok síðasta árs en var 48% í lok árs 2022. Stjórn félagsins leggur til að arðgreiðsla á árinu 2024 vegna rekstrarársins 2023 verði 2,0 krónur á hlut eða 3.851 milljón króna, sem nemur 2,39% af markaðsvirði hlutafjár í lok árs.

Lykiltölur / Brim hf.

2023 2022
Tekjur 437,2 450,9
EBITDA 97,2 117,7
Eignir 949,7 942,9
Afkoma 62,9 79,3
- í milljónum evra

Gengið á með skini og skúrum

Í tilkynningu um uppgjörið kemur fram að rekstur botnfiskasviðs á árinu hafi skilað lægri framlegð en undanfarin tvö ár einkum vegna aðstæðna á mörkuðum þar sem þrýstingur var á afurðaverð. Á móti gengu veiðar og vinnsla uppsjávarfisks vel á árinu.

Afli skipa félagsins á árinu var 44 þúsund tonn af botnfiski og 165 þúsund tonn af uppsjávarfiski samanborið við tæp 43 þúsund tonn af botnfiski árið áður og tæp 164 þúsund tonn af uppsjávarfiski.  Skipastóll samstæðunnar var 10 skip í árslok. Meðalfjöldi ársverka var 694 og fækkaði um 19 milli ára.

Guðmundur Kristjánsson, forstjóri Brims, segir rekstur hafa verið traustan á árinu 2023, þó gengið hafi á með skini og skúrum í starfseminni. Þannig hafi til að mynda heimildir til veiða aukist á sumum fisktegundum en minnkað á öðrum. Þá séu aðstæður á erlendum mörkuðum misjafnar.

Að lokum virðist forstjórinn vísa til frumvarps til nýrra heildarlaga um sjávarútveginn, sem hefur verið harðlega gagnrýnt.

„Óvissan í rekstri á sjávarútvegsfyrirtæki er margvísleg ekki síst þegar stríð geisa nærri mörkuðum okkar í Evrópu og heimsbyggðin öll glímir við verðhækkanir og verðbólgu. Hér á landi bætir síðan í alla óvissu þegar stjórnsýsla og stjórnvöld boða ítrekað breytingar á forsendum í rekstri greinarinnar og þeirri umgjörð sem fyrirtækin hafa lagað sig að í áratugi. Öll hagnýting auðlinda kallar á langtímahugsun og fjárfestingar sem borga sig upp á áratugum. Stöðugleiki skapar forsendur fyrir aukinni arðsemi.

Grundvallarforsenda í rekstri atvinnugreina eins og sjávarútvegs eru skýrar leikreglur og fyrirsjánleiki og það er það sem Ísland þarf að leggja áherslu á.”