Warren Buffett tilkynnti í gær að hann hefði gefið frá sér hlutabréf í fjárfestingarfélaginu Berkshire Hathaway að andvirði 866 milljónir dala eða sem nemur 122 milljörðum króna á gengi dagsins. Reuters greinir frá.

Í tilkynningu til Verðbréfaeftirlits Bandaríkjanna kemur fram að Buffett hafi gefið 1,5 milljónir af B hlutabréfum í Berkshire Hathaway til Susan Thompson Buffett Foundation, góðgerðasamtaka sem nefnd eru í höfuðið á fyrri eiginkonu Buffetts sem lést árið 2004.

Þá gaf goðsagnakenndi fjárfestirinn samtals 900 þúsund B-hluti til góðgerðarfélaga sem rekin eru af börnunum sínum; Howard, Susan og Peter. Umrædd bréf skiptist jafnt á milli samtakanna the Howard G. Buffett Foundation, the Sherwood Foundation og the NoVo Foundation.

Hinn 93 ára gamli Buffett gaf einnig hlutabréf í Berkshire á svipuðum tíma í fyrra – rétt fyrir þakkargjörðarhátíðina líkt í ár – að andvirði 759 milljónir dala.

„Mér líður vel“

Buffett sendi einnig frá sér bréf til hluthafa þar sem hann ítrekaði að meira en 99% af auðæfum sínum myndu renna til góðgerðarmála. Hann minntist einnig á eigin heilsu í bréfinu.

„Á 93 ára aldri, líður mér vel en ég geri mér fulla grein fyrir því að ég sé kominn í uppbótartíma (e. extra innings),“ skrifar Buffett. Undanfarin ár hefur hann minnkað við sig vinnu en hefur þó ekki enn lýst yfir áformum um að láta af störfum.