Eignir nýstofnaðs fjárfestingafélags Davíðs Helgasonar hér á landi námu 236 milljörðum og eigið fé 225 milljörðum króna þann 1. desember við samruna við dönsk fjárfestingafélög í eigu Davíðs. Þar munaði mest um 214 milljarða króna bókfært virði hlutabréfa í hugbúnaðarfyrirtækinu Unity, sem Davíð stofnaði og stýrði um tíma. Síðan þá hefur gengi Unity hins vegar fallið um 77%, úr 172 dölum á hlut í 40 dali á hlut.
Ríflega 3% hlutur Davíðs í Unity sem eftir stendur er nú metinn á um 50 milljarða króna. Áður en að verðfallinu kom, eða frá maí 2021 og fram til mars á þessu ári, seldi Davíð hins vegar hluta bréfa sinna í Unity fyrir um tuttugu milljarða íslenskra króna.
Davíð var lengst af búsettur í Danmörku en flutti nýlega til Íslands og hefur að undanförnu unnið að því að setja á fót fjárfestingafélög um loftslagstengd verkefni á Íslandi.
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.