Næst stærsta hagkerfi í heimi sem hýsir þar að auki 1,4 milljarð íbúa hefur verið mjög áberandi í fréttunum undanfarnar vikur. Hægur efnahagsvöxtur, atvinnuleysi meðal ungs fólks og upplausn á fasteignamarkaði hafa einkennt Kína það sem af er ári.
Nýjustu fregnir eru þær að stjórnarformaður skuldsettasta fasteignaframleiðanda heims, Evergrande, hafi verið settur undir lögreglueftirlit og hafa hlutabréf félagsins verið stöðvuð á hlutabréfamarkaði.
Erfið staða Evergrande og neikvæð efnahagsumfjöllun undanfarin misseri hafa eflaust verið mikill hausverkur fyrir kínversk yfirvöld, en sérfræðingar velta því fyrir sér hversu mikil áhrifin gætu verið fyrir alheimsmarkaði.
Niðurstaðan virðist vera sú að áhrifin verði ekki eins mikil og dómsdagsspár gera ráð fyrir. Alþjóðleg fyrirtæki, starfsmenn þeirra og jafnvel fólk sem hefur engin bein tengsl við Kína gætu engu að síður fundið fyrir einhvers konar áhrifum.
„Ef Kínverjar hætta að fara út að borða í hádeginu, hefur það áhrif á hagkerfi heimsins? Svarið er: ekki eins mikið og þú myndir halda, en það hefur mikil áhrif á fyrirtæki sem treysta beint á innlenda neyslu Kínverja,“ segir Deorah Elms, framkvæmdastjóri Asian Trade Center í Singapúr.
Hundruð stórra alþjóðlegra fyrirtækja eins og Apple, Volkswagen og Burberry fá mikið af tekjum sínum frá stóra neytendamarkaðnum í Kína og verða fyrir barðinu þegar heimilin þar í landi eyða minni pening.
Keðjuverkaáhrif myndast svo hjá þúsundum birgja og starfsmanna þeirra um allan heim sem reiða einmitt á þau fyrirtæki. Til að mynda hefur bandaríska lánshæfimatsfyrirtækið Fitch lækkað vaxtarspá sína fyrir 2024 um allan heim einkum vegna samdráttar í Kína.
Sumir hagfræðingar hafa hins vegar gagnrýnt þá hugsun að Kína sé vélin sem knýr áfram hagkerfi heimsins og að slíkar samdráttarspár séu mjög ýktar.
„Stærðfræðilega séð þá samsvarar Kína 40% af öllum hagvexti í heiminum. En hver er það sem raunverulega hagnast á þessum gróða? Þjóðin flytur til að mynda mun meiri varning út heldur en hún flytur inn þannig að vöxtur Kína hefur í rauninni bara áhrif á Kína, frekar en á allan heiminn,“ segir George Magnus, hagfræðingur við kínverskudeild Oxford-háskóla.
Kínverskir neytendur hafa engu að síður verið að eyða minna sem hefur bein áhrif á eftirspurn hráefna og vörur. Í ágúst til dæmis flutti Kína inn tæplega 9% minna af erlendum vörum en á sama tíma í fyrra, þegar landið var enn að kljást við þungar samkomutakmarkanir.
Minni erlend fjárfesting gæti einnig haft áhrif á utanríkisstefnu kínverskra stjórnvalda. Á meðan sumir hagfræðingar telja að viðkvæmari staða Kína gæti hvatt þjóðina til að bæta samskipti sín við Bandaríkin, þá virðast engar vísbendingar benda til þess að sú sé raunin.
Sambandið er engu að síður flókið en kínversk stjórnvöld hafa haldið áfram að svara fyrir sig með sínum eigin viðskiptahömlunum og ásakað vestræn ríki um kaldastríðshugsun. Á meðan er ríkisstjórnin einnig að efla tengsl sín við Rússland og Sýrland.
Það hefur hins vegar ekki stöðvað stöðugt flæði evrópskra og bandarískra embættismanna sem ferðast til Kína nánast í hverjum mánuði til að ræða tvíhliða viðskipti. Sannleikurinn er einfaldlega sá að það virðast fáir vita í raun og veru hvar munurinn liggur milli kínversks orðafars og stefnu kínverskra stjórnvalda.