Fjölmiðla- og athafnamennirnir Egill Einarsson, Auðunn Blöndal og Steinþór Hróar Steindórsson, eru meðal stofnenda félagsins Celsius dreifing ehf. að því er fram kemur í Lögbirtingablaðinu.

Skráður tilgangur félagsins er heildverslun og dreifing heildsöluvara.

Meðstofnandi félagsins með þeim þremur er Myndform ehf. sem flutt hefur inn orkudrykkinn Celsius. Myndform sem stofnað var árið 1984 var lengst af þekkt fyrir sölu á DVD diskum og myndbandsspólum. Í dag rekur fyrirtækið heildsölu, framleiðsludeild og er dreifingaraðili kvikmynda og tölvuleikja á Íslandi.

Á heimasíðu Myndforms segir að Celsius sé sykurlaus koffíndrykkur sem veiti neytendum orku á við um tvo kaffibolla, sé algjörlega kolvetnalaus og vegan auk þess að innihalda ýmis steinefni og vítamín.