Lögmannsstofan Logos hefur hagnast um 2,2 milljarða á þremur árum en á síðasta ári nam hagnaður hennar um 736 milljónum króna. Vegna þeirrar frammistöðu lagði stjórn félagsins til að 680 milljóna króna arður yrði greiddur út til eigenda á árinu 2012. Meðaltalsarðgreiðsla á hvern eiganda er 40 milljónir króna, en tveir þeirra 17 sem eiga stofuna eiga ekki fullan hlut. Þetta kemur fram í nýbirtum ársreikningi Logos og sem greint er frá í Fréttablaðinu í dag.
Hagnaðurinn er í takt við hagnað Logos á undanförnum árum, en stofan græddi samtals tæpa 1,5 milljarða króna á árunum 2009 og 2010. Samanlagður hagnaður hennar frá bankahruni er því um 2,2 milljarðar króna. Þorri hagnaðar stofunnar á því tímabili hefur verið greiddur í arð til eigenda hennar.
Á meðal eigenda eru Gunnar Sturluson, Erlendur Gíslason og Óttar Pálsson. Alls nam velta Logos 2,6 milljörðum króna í fyrra, sem er 268 milljónum króna meira en stofan velti árið áður. Þá störfuðu 83 starfsmenn að meðaltali í 74 heilsársstöðugildum hjá Logos í fyrra. Greiðslur vegna launa- og launatengdra gjalda námu 968,6 milljónum króna.