Rekstrarniðurstaða Strætó árið 2022 var neikvæð um 834 milljónir króna en áætlun félagsins gerði ráð fyrir að hún yrði neikvæð um 242 milljónir.

„Lakari afkoma skýrist af því að sú tekjuaukning sem fjárhagsáætlun ársins gerði ráð fyrir skilaði sér ekki sem rekja má til vaxandi verðbólgu, olíuverðhækkun, kjarasamningsbundnum launahækkunum og styttingu vinnuvikunnar,“ segir í ársreikningi félagsins.

Tekjur Strætó af fargjöldum jukust um 22% á milli ára og námu 1.733 milljónum. Áætlun Strætó gerði ráð fyrir 1.847 milljónum. Rekstrartekjur Strætó námu alls nærri 9,6 milljörðum en þar af voru tæplega 6 milljarða framlag frá sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu og ríkinu.

Rekstrargjöld milljarði yfir áætlun

Rekstrargjöld Strætó jukust um 14% og námu 9,9 milljörðum króna. Áætlun félagsins gerði ráð fyrir að rekstrargjöld yrðu í kringum 8,9 milljarðar.

Frávikið frá áætlun má að stærstum hluta rekja til þess að kostnaður vegna reksturs vagna og aðkeypts aksturs nam 4,5 milljörðum en gert var ráð fyrir hann yrði nær 3,9 milljörðum.

Í maí 2022 dæmdi Héraðsdómur Reykjavíkur Strætó til að greiða hópbifreiðafyrirtækinu Teiti Jónassyni ehf. 205 milljónir króna auk dráttarvaxta frá árinu 2010 til ársins 2020.

Strætó hefur gjaldfært 322 milljónir króna vegna þessa máls eða sem nemur skaðabótum samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms auk dráttarvaxta. Þar af voru 247 milljónir gjaldfærðar árið 2022. Strætó hefur áfrýjað málinu til Landsréttar.

Milljarður í viðbótarframlag dugi aðeins til skamms tíma

Eignir Strætó voru bókfærðar á tæplega 3,2 milljarða króna í árslok 2022. Skuldir félagsins námu yfir 3,1 milljarði en þar af voru skammtímaskuldir 1,5 milljarðar. Eigið fé félagsins nam undir 10 milljónum króna og var eiginfjárhlutfallið 0,3%.

Handbært fé nam 539 milljónum en þar af eru um 400 milljónir sérstaklega eyrnamerktar rafvagnakaupum.

Eigendur Strætó, þ.e. sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu lögðu Strætó til 520 milljónir króna í október síðastliðnum. Einnig samþykktu sveitarfélögin í nóvember að auka rekstrarframlag um 520 milljónir vegna ársins 2023.

„Með þessu er rekstrarhæfi Strætó af reglulegri starfsemi tryggt en þó einungis til skamms tíma,“ segir í skýrslu stjórnar og framkvæmdastjóra.

Í samtali við Viðskiptablaðið í september, áður en tekin var endanleg ákvörðun um viðbótarframlag, hafði Jóhannes Svavar Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, sagt að hann teldi að félagið þyrfti 1,5 milljarða króna viðbótarframlag, til að rétta af veltufjár- og eiginfjárhlutfall félagsins.

„Styrkja þarf fjárhag félagsins til framtíðar og þurfa eigendur og ríki að leita allra leiða til að bæta reksturinn, ekki einungis til að mæta sveiflum í rekstri, heldur til að mæta auknum kröfum um sjálfbærni, orkuskipti í samgöngum og verkefni tengdum eflingu almenningssamgangna s.s. Borgarlínu,“ segir í ársreikningnum.

Eigendur Strætó

Eigandi Eignarhlutur
Reykjavíkurborg 60,3%
Kópavogsbær 14,6%
Hafnarfjarðarbær 12,5%
Garðabær 6,2%
Mosfellsbær 4,1%
Seltjarnarnesbær 2,3%