Eim­skip sakaði SKE um lög­brot með því að krefjast svara við á­sökunum án þess að gefa þeim að­gang að máls­gögnum. Þegar gögn voru loks af­hent komu ýmsir van­kantar í ljós.

Í and­mæla­skjölum Eim­skips við frum­niður­stöðum Sam­keppnis­eftir­litsins sakar skipa­fé­lagið SKE um að hafa brotið lög með því að gefa út tvö and­mæla­skjöl, krefjast svara við á­sökunum áður en þær eru að fullu komnar fram og að fé­lagið hafi fengið að­gang að gögnum máls.

Þegar öll gögn voru á endanum af­hent kom ýmis­legt í ljós í rann­sókn eftir­litsins á meintu sam­ráði Eim­skips og Sam­skipa á árunum eftir hrun.

Eim­skip sendi ítar­leg og rök­studd and­mæla­skjöl til eftir­litsins í mars og júní 2020 þar sem fé­lagið sagði rang­færslur og ann­marka á rann­sókninni ó­teljandi. Ári síðar á­kvað fé­lagið að ljúka málinu með sátt.

Ítrekað eignað orðin „voða kósý“

Sam­keppnis­eftir­litið byggir niður­stöður sínar á svo­kölluðu NR-sam­ráði en nafnið er sam­suða úr upp­hafs­stöfum tveggja innan­hús­verk­efna Eim­skips og Sam­skipa.

Meðal for­sendna þeirrar kenningar er að Eim­skip hafi lýst flutnings­markaðnum sem „voða kósý“ og er í­trekað stað­hæft í and­mæla­skjölunum sem Eim­skip voru af­hent, að fé­lagið hafi notað þessi orð.

Sem fyrr segir kvörtuðu Eim­skips­menn yfir að hafa ekki fengið gögn málsins en þegar um­mælin voru loks borin undir skipa­fé­lagið bendir Eim­skip á að sam­tíma­gögn, sem „sam­keppnis­eftir­litið leyndi Eim­skip“ sýni skýrt að um­mælin hafi ekki verið höfð eftir neinum hjá skipa­fé­laginu.

„Gögnum því til meints stuðnings var haldið frá Eim­skip í tæp tvö ár frá birtingu fyrra and­mæla­skjals. Þegar þau voru loks af­hent eftir í­trekaðar kröfur Eim­skips um gögn málsins, kom á daginn að til­vitnuð um­mæli voru alls ekki höfð eftir Eim­skip, heldur fyrr­verandi starfs­manni Arion banka hf.,“ segir í síðari and­mælum Eim­skips frá júní 2020.

Ætluðu að setja Samskip „á hælana“

Eim­skips­menn telja þessa á­lyktun eftir­litsins um að friður hafi verið á markaði sér­staka í ljósi þess að árið 2008 stað­festi á­frýjunar­nefnd Sam­keppnis­mála úr­skurð SKE um að Eim­skipi hafi verið ó­lög­mætt að hyggjast ætla að setja Sam­skip „á hælana“.

Eim­skip fékk 230 milljóna króna stjórn­valds­sekt fyrir að hafa sett stóra við­skipta­vini Sam­skipa á „target lista“ og reynt að fara á eftir þeim.

Eim­skip var talið hafa raskað sam­keppni með svo­kallaðri sér­tækri verð­lækkun eða til­boði sem markaðs­ráðandi fyrir­tæki til við­skipta­vina smærri keppi­nauta.

Að mati eftir­litsins sjálfs miðaði markaðsat­lagan að því „að ná miklum við­skiptum af Sam­skipum með ó­eðli­legum til­boðum og undir­boðum.”

Þá lagði Eim­skip einnig fram ítar­leg gögn í málinu til að hrekja full­yrðingar um að friður hafi verið á markaði.

Má þar nefna kvörtun Sam­skipa til Sam­keppnis­eftir­litsins 4. maí 2011 þar sem er lýst fjöl­mörgum dæmum um á­sókn Eim­skips í stóra við­skipta­vini Sam­skipa.

Sú kvörtun kemur einnig fram í and­mælum Sam­skipa en að þeirra mati verður það að teljast sér­stakt að þeir hafi óskað eftir rann­sókn Sam­keppnis­eftir­litsins á helsta keppi­naut sínum ef þeir væru í alls­herjar­sam­ráði. Engum þeim til­vikum sem lýst er í kvörtun Sam­skipa frá 2011 hefur verið hnekkt af Sam­keppnis­eftir­litinu.

Eim­skips­menn leggja einnig fram ítar­leg innan­húss­gögn sem þeir segja Sam­keppnis­eftir­litið hafa á­kveðið að líta fram hjá sem sýni að fé­lagið hafi verið í harðri sam­keppni við Sam­skip.

Í glæru­kynningu innan­lands­sviðs Eim­skips dags. 30. septem­ber 2008 kemur fram að afar hörð sam­keppni ríki á markaðnum. Í kynningu á upp­gjöri Eim­skips frá febrúar 2009 fyrir innan­lands­flutninga er til­tekið að fyrir hendi sé: „Mikil sam­keppni á markaði – sótt að okkur.“

Í glæru­kynningu fyrir stjórn­enda­fund Eim­skips 1. októ­ber 2009 kemur fram að fyrir hendi sé „hörð sam­keppni og afar erfitt rekstrar­um­hverfi“ sem séu meðal helstu ógna Eim­skips á innan­lands­markaði.

Eim­skip nefnir fjöl­mörg dæmi til við­bótar og segir að „lýsing sem svo ríka stoð fær í sam­tíma­gögnum geti á engan hátt talist röng, villandi eða ó­full­nægjandi.“

Í gögnum sam­ráðs­málsins er einnig að finna upp­lýsingar um að Sam­skip hafi gert sér­stakan „target“ lista á við­skipta­vini Eim­skips á um­ræddu sam­ráðs­tíma­bili.

„Sam­skip lét út­búa sér­stakan flokk í kerfum sínum yfir mögu­lega við­skipta­menn sem fé­lagið gæti sótt frá Eim­skip. Átti þetta sér stað í byrjun árs 2010, eða hringiðu ætlaðs sam­ráðs skv. kenningu Sam­keppnis­eftir­litsins sem þannig fær ber­sýni­lega ekki staðið. Fyrir árið 2012 út­bjó svo Sam­skip sér­staka „target“ lista yfir þá við­skipta­vini Eim­skip sem fé­lagið hugðist sækja sér­stak­lega á,“ segir í and­mælum.