Guðný Nielsen, stofnandi SoGreen, segir að menntun stúlkna sé ein af áhrifaríkustu loftslagslausnunum heims. Fyrirtæki hennar sérhæfir sig í að auka aðgengi stúlkna að menntun með framleiðslu kolefniseininga.

SoGreen vinnur nú að sínu fyrsta verkefni sem tryggja mun 180 jaðarsettum stúlkum í Sambíu fulla gagnfræðiskólamenntun næstu fimm árin. SoGreen vinnur með Deloitte að undirbúningi þess að geta sótt um vottun að verkefni loknu. Þegar hafa yfir 30 félög keypt kolefniseiningar af SoGreen. „Viðskiptavinir okkar eru fjármálafyrirtæki, fyrirtæki í sjávarútvegi og ferðaþjónustu, verslanakeðjur, ýmis framleiðslufyrirtæki og félög með virðiskeðjur sem spanna jafnvel allan heiminn.“

Fyrirtæki geta þar með stutt loftslagsaðgerðir utan virðiskeðjunnar með kaupum á kolefniseiningum. Guðný segir að henni hafi fundist mikilvægt að koma með nýjan möguleika að kaupa kolefniseiningar af verkefnum sem eru ekki bara kolefnisbinding, heldur efla líka samfélögin sem verða fyrir mestum áhrifum loftslagsbreytinga.

„Mæður sem eru menntaðar eru mun líklegri til að tryggja börnum sínum menntun"

Rík þörf á viðbótarleið

SoGreen hefur unnið með nokkrum af virtustu vísindastofnunum Evrópu, þar á meðal Potsdam Institute for Climate Impact Research, Wittgenstein Center og IIASA. Í ráðgjafaráði fyrirtækisins situr Dr. Shonali Pachauri en hún er einn aðalhöfunda nýjustu skýrslu milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál.

„Það eru endalaust af hjálparsamtökum sem hafa í áratugi reynt að afla fjár í þetta en við þurfum viðbótarleið, því við náum ekki þessum markmiðum á núverandi hraða,“ segir Guðný og bætir við að heimsfaraldurinn hafi einnig orðið til þess að óléttutíðni unglingsstúlkna stórjókst þegar skólarnir í þessum ríkjum lokuðu.

Guðný segir að menntun stúlkna snúist líka um margt annað en bara mannréttindi og loftslagsmál. „Mæður sem eru menntaðar eru mun líklegri til að tryggja börnum sínum menntun. Börnin þeirra eru 50% líklegri til að lifa til 5 ára aldurs því þær vita um gagnsemi bólusetninga, heilbrigða næringu og sóttvarnir.“

Fjallað er um málið í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.