Hjúkrunarheimilin Eir, Skjól og Hamrar hafa undirritað samning við heilbrigðistæknifyrirtækið Helix um innleiðingu á lausnunum Iðunni og Lyfjavaka.

Í tilkynningu segir að lausnirnar muni bæta yfirsýn, auka öryggi íbúa og flýta fyrir skráningu á lyfja- og heilbrigðisgögnum. Þannig mun starfsfólk geta varið meiri tíma með íbúum hjúkrunarheimilanna, samfella í meðferð íbúa eykst og minni tími fer í stöðufundi og skráningar í gagnagrunnum.

Hjúkrunarheimilin Eir, Skjól og Hamrar hafa undirritað samning við heilbrigðistæknifyrirtækið Helix um innleiðingu á lausnunum Iðunni og Lyfjavaka.

Í tilkynningu segir að lausnirnar muni bæta yfirsýn, auka öryggi íbúa og flýta fyrir skráningu á lyfja- og heilbrigðisgögnum. Þannig mun starfsfólk geta varið meiri tíma með íbúum hjúkrunarheimilanna, samfella í meðferð íbúa eykst og minni tími fer í stöðufundi og skráningar í gagnagrunnum.

„Við á Eir, Skjóli og Hömrum teljum mikilvægt að vera virkir þátttakendur í þróun heilbrigðislausna í okkar starfsemi og höfum góða reynslu af samstarfi við Origo (nú Helix) í gegnum árin. Við teljum ljóst að þessi innleiðing muni auka gæði í umönnunarþjónustu við okkar skjólstæðinga, auka öryggi í allri lyfjaumsýslu á heimilunum og auðvelda starfsfólki okkar að sinna sínum mikilvægu verkefnum,“ segir Eybjörg Helga Hauksdóttir, framkvæmdastjóri rekstrarsviðs hjá Eir, Hömrum og Skjóli.

Smáforritið Iðunn nýtist starfsfólki á hjúkrunarheimilum til þess að skrá helstu upplýsingar um hjúkrunarmeðferðir íbúa í rauntíma. Í smáforritinu er meðal annars hægt að haka við framkvæmd tiltekinna verka, skrá niðurstöður mælinga, taka myndir af sárum til að meta framgang meðferðar og hringja beint í aðstandendur. Allar skráðar upplýsingar í smáforritinu færast sjálfkrafa inn í Sögu, sjúkraskrá íbúans.

Lyfjavaki er rafrænt lyfjaskráningarkerfi sem gerir hjúkrunarfræðingum kleift að halda utan um skráningar á lyfjatiltekt og lyfjagjöfum íbúa. Sérþjálfað starfsfólk getur notast við smáforrit til að staðfesta lyfjagjafir sem hafa verið teknar til af hjúkrunarfræðingum. Með notkun Lyfjavaka er tryggt að rekjanleiki lyfjagjafa sé í samræmi við þær kröfur sem gilda um slíka skráningu.

„Stafvæðing skráningar í heilbrigðiskerfinu er grunnurinn að því að hagnýta heilbrigðisgögn. Við höfum séð að skráning verður ítarlegri fyrir hvern íbúa þar sem Iðunn hefur verið innleidd og samhliða því hefur tíminn sem heilbrigðisstarfsfólk eyðir í skráningu styst umtalsvert,“ segir Arna Harðardóttir, framkvæmdastjóri Helix.