Skýrsla starfshóps, sem Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra skipaði haustið 2022, um breytingar á stofnanaumgjörð samkeppnis- og neytendamála, hefur ekki enn verið birt.

Var starfshópurinn skipaður meðal annars til að kanna fýsileika þess að sameina Samkeppniseftirlitið og Neytendastofu.

Viðskiptablaðið greindi frá því í október síðastliðnum að starfshópurinn hafi skilað drögum að skýrslu til ráðherrans þann 14. mars 2023.

Trausti Fannar Valsson, dósent við lagadeild Háskóla Íslands, hafi verið fenginn til að stilla upp grófum drögum að frumvarpi til þess að nýta í vinnu innan ráðuneytisins og fá betri heildarmynd af málinu.

Í svari við fyrirspurn Viðskiptablaðsins á þeim tíma kom fram að næst tæki við samtal milli stjórnarflokkanna um framhald málsins en til stóð að málinu myndi ljúka með haustinu.

Enn hefur þó ekkert heyrst og hefur þingmaður Samfylkingarinnar meðal annars lagt fram fyrirspurn á Alþingi þar sem svara er krafist um stöðu málsins.