Elon Musk hefur sagt að stjórn Disney ætti að reka Bob Iger, forstjóra fyrirtækisins, án tafar eftir að Disney hætti að auglýsa sig á samfélagsmiðlinum X. Musk lét orðin falla rúmlega viku eftir að hafa sagt fyrirtækjum sem sniðgengu miðilinn hans að þau gætu „fokkað sér“.

BBC greinir frá þessu en að sögn miðilsins hefur Disney enn ekki tjáð sig um málið.

„Walt Disney er að snúa sér við í gröfinni yfir því sem Bob hefur gert fyrirtæki sínu,“ skrifaði Musk meðal annars í nokkrum færslum á samfélagsmiðlinum.

Nokkur fyrirtæki hafa nýlega tekið sér pásu frá því að auglýsa sig á miðlinum vegna áhyggja af gyðingahatri en Musk tók nýlega undir samsæriskenningar um gyðinga sem hópar hvítra kynþáttahatara hafa ýtt undir.

Bob Iger sneri aftur sem forstjóri Disney fyrir rúmu ári síðan en á þeim tíma höfðu hlutabréf fyrirtækisins undir leiðsögn Bob Chapek lækkað töluvert. Eftir að Iger kom til baka hefur Disney samið eða tekið yfir ýmis fyrirtæki á borð við Pixar, Marvel, 21st Century Fox og Lucasfilm.

Þessar ákvarðanir sem og opnun fleiri skemmtigarða hafa fimmfaldað markaðsvirði Disney.