Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 5,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Óhætt er að segja að mestur áhugi á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag var með skráningu Ísfélagsins í Kauphöllina að loknu 18 milljarða króna almennu hlutafjárútboði.

Úrvalsvísitalan lækkaði um hálft prósent í 5,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Óhætt er að segja að mestur áhugi á íslenska hlutabréfamarkaðnum í dag var með skráningu Ísfélagsins í Kauphöllina að loknu 18 milljarða króna almennu hlutafjárútboði.

Tæplega tveggja milljarða króna velta var með hlutabréf Ísfélagsins sem hækkuðu töluvert frá útboðsgenginu. Hlutabréfaverð félagsins endaði daginn í 163,9 krónum á hlut sem samsvarar 21,4% hækkun frá útboðsgengi í A-bók útboðsins og 5,7% frá hækkun frá B-bókinni í útboðinu.

Útboðsgengið í A-bókinni, sem miðað var að almennum fjárfestum sem buðu undir 20 milljónum króna, var 135 krónur á hlut og í B-bókinni var útboðsgengið 155 krónur.

Hlutabréfaverð Brims og Síldarvinnslunnar hækkuðu um 1,5% í viðskiptum dagsins sem má eflaust rekja að hluta til áhuga á bréfum Ísfélagsins.

Auk útgerðarfélaganna þá hækkuðu hlutabréf Kviku banka og Ölgerðarinnar um meira en 1% í viðskiptum dagsins. Gengi Kviku banka hefur nú hækkað um 16,5% á rúmum tveimur vikum og stendur nú í 15,5 krónum á hlut.

Þrettán félög aðalmarkaðarins lækkuðu í dag. Marel lækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,4% í tæplega hundrað milljóna króna veltu. Gengi Marels stendur nú í 446 krónum á hlut.