BYKO hefur ákveðið að hækka ekki verðlistaverð að minnsta kosti næstu sex mánuði en fyrirtækið segir í tilkynningu að ákvörðunin sé tekin til að sýna samfélagslega ábyrgð í takt við áherslur fulltrúa verkalýðsforystunnar og atvinnulífsins.
„Til að ná þjóðarsátt þurfa allir aðilar að koma að málum, fyrirtæki landsins, hið opinbera og aðilar vinnumarkaðarins,“ segir jafnframt í tilkynningu frá BYKO.
Fyrirtækið segist líta á það sem hlutverk sitt að axla ábyrgð í baráttunni gegn verðbólgu, í ljósi stærðar sinnar og áhrifa í byggingariðnaði. BYKO segir byggingariðnaðinn vera undir miklu álagi vegna vaxtastigs og verðbólgu. Áfram verði þó þörf á framkvæmdum, nýbyggingum, endurbótum og viðhaldi.
„Við trúum því að með því að stíga þetta skref, getum við hvatt aðra til að fylgja okkar fordæmi og þannig stuðlað að heilbrigðara hagkerfi. Góður andi í kjaraviðræðum gefur tilefni til bjartsýni og vill BYKO leggja sitt að mörkum til að svo verði áfram. BYKO kann að endurskoða ákvörðunina í ljósi breytinga á hagkerfinu og niðurstöðu kjarasamninga,“ segir Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO.
Á næstu misserum mun BYKO einnig fara í að endursemja við birgja fyrirtækisins á þessum forsendum en fyrirtækið segir mikilvægt að allir í virðiskeðjunni séu samstíga.