Alphabet, móðurfélag Google, hefur losað enn meiri hlut í Robinhood, fyrirtæki sem heldur úti smáforriti fyrir viðskipti hlutabréfa án þóknanna.

Ekki eru nema örfáir mánuðir síðan Alphabet seldi nær 90% af hlut sínum í Robinhood. Í kjölfar þeirrar sölu átti móðurfélag Google um 612.214 hluti í félaginu.

Alphabet fjárfesti í Robinhood á fyrstu árum félagsins í rekstri, meðan það var enn sproti sem var byrjaður að vekja áhuga meðal áhugafjárfesta sem þóknanalaus milliliður. Í dag er félagið skráð á markað.

Hækkandi vaxtastig vestanhafs hefur valdið Robinhood vandræðum, enda halda margir fjárfestar að sér höndum við slíkar aðstæður. Það varð til þess að félagið skilaði lægri tekjum á þriðja ársfjórðungi en greinendur höfðu gert ráð fyrir.