Rekstrartap fiskeldisfyrirtækisins Icelandic Salmon, áður Arnarlax, nam 50 milljónum norskra króna á síðasta ári en það jafngildir rúmlega 750 milljónum íslenskra króna. Þetta kemur fram í árshlutareikningi norska móðurfélagsins SalMar.

Um er að ræða neikvæðan viðsnúning upp á 150 milljónir norskra króna en fyrirtækið skilaði rekstrarhagnaði sem nam hundrað milljónum norskra króna árið 2019. Erfiður markaður og lægra verð á laxi er sagt liggja að baki rekstrartapinu.

„2020 reyndist erfitt ár fyrir Icelandic Salmon, sem upplifði töluverða erfiðleika í upphafi ársins,“ segir í tilkynningu SalMar til norsku Kauphallarinnar. Hins vegar hafi líffræðilegt ástand stofnsins í laxeldinu í Arnarfirði batnað til muna.

Rekstrartekjur Icelandic Salmon jukust um 5,6% milli ára og námu 662 milljónum norskra króna árið 2020. Á síðasta ársfjórðungi 2020 hóf fyrirtækið uppskeru á 2019 kynslóð eldislaxins sem hafi töluvert lægri uppskerukostnað.

Icelandic Salmon framleiddi 11,2 þúsund tonn af eldislax á síðasta ári, sem er 14% aukning frá fyrra ári. Fyrirtækið væntir þess að framleiða 14 þúsund tonn af eldislaxi í ár.