Erlendur Magnússon, bankamaður sem starfaði lengi vel sem framkvæmdastjóri hjá Íslandsbanka, gagnrýnir inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði í gær. Hann segir að gengi krónunnar þurfi að leita nýs jafnvægis í ljósi breytts umhverfis og vísar þar til náttúruhamfara á Reykjanesskaga. Það hjálpi lítt ef Seðlabankinn reynir að standa gegn því með inngripum.

Seðlabankinn greip inn í á gjaldeyrismarkaði í gær, í fyrsta sinn síðan í janúar síðastliðnum. Innherji greindi frá því í gær að bankinn hefði selt gjaldeyri fyrir samtals 18 milljónir evra, eða um 2,8 milljarða króna, í gær til að vinna gegn frekari veikingu krónunnar.

„Seðlabankinn á alls ekki að grípa inn í gjaldeyrismarkaðinn þessa stundina,“ segir Erlendur í færslu á Facebook.

„Gengi krónunnar þarf að leita nýs jafnvægis í ljósi breytts umhverfis. Það hjálpar lítt ef Seðlabankinn reynir að standa gegn því með inngripum. Óumflýjanleg veiking krónunnar mun rýra kaupmátt alls almennings við kaup á erlendum vörum og þjónustu og styðja við útflutningsgreinar landsins og þannig stuðla að því að við komumst fyrr upp úr þeim vanda sem náttúruöflin hafa valdið.“

Erlendur segir að mikið tjón hafi þegar orðið á Reykjanesskaganum, þar meðal verulegar skemmdir á íbúðarhúsnæði í Grindavík og sum fyrirtæki hafi orðið fyrir óbætanlegu tjóni. Því miður séu þó líkur til þess að tjónið geti orðið enn meira hefjist eldgos á Reykjanesskaganum.

„Það er deginum ljósara að þjóðarbúið hefur orðið fyrir miklu áfalli. Útflutningstekjur munu dragast eitthvað saman vegna þessa, staða ríkissjóðs versna verulega, og kaupmáttur launa mun rýrna. Það eru bara kjánar sem halda að kaupmáttur launa í landinu ráðist við samningaborðið í Borgartúni – kaupmáttur launa ræðst í raunhagkerfinu þar sem verðmætasköpunin á sér stað og raunhagkerfið hefur orðið fyrir skakkaföllum sem ekki verður leyst úr á skömmum tíma.“

Seðlabankinn þurfi að stöðva vaxtahækkunarferlið

Erlendur lætur ekki þar við liggja og segir að Seðlabankinn þurfi að stöðva vaxtahækkunarferli sitt, í það minnsta þar til rykið hafi sest.

Í þessum aðstæðum þurfi aðilar vinnumarkaðarins einnig að semja sem fyrst um launahækkanir „í takt við það sem gerist í öðrum Evrópulöndum, þ.e. 1-2% á ári næstu 2-3 árin. Þannig eru mestar líkur á að kjör landsmanna batni hraðast og mest á komandi árum.“