Evrópski seðla­bankinn, sem sér um peninga­mála­stefnu evru­svæðisins, mun að öllum líkindum lækka vexti í næstu viku, ef marka má um­mæli Philip Lane aðal­hag­fræðings bankans í Financial Times í morgun.

Vextir evrópska bankans hafa aldrei verið hærri en ef fram fer sem horfir verður bankinn á undan Eng­lands­banka og banda­ríska seðla­bankanum til að hefja vaxta­lækkunar­ferli sitt.

Lane sagði í við­tali við FT að ef ein­hverjar stórar upp­á­komur verða á evru­svæðinu fram að fundi peninga­stefnu­nefndar 6. júní sé ekkert því til fyrir­stöðu að byrja vaxta­lækkunar­ferlið.

Fjár­festar eru að veðja á 25 punkta lækkun en vextir á evru­svæðinu eru 4% og hafa aldrei verið hærri. Verð­bólga á evru­svæðinu mældist 2,4% í apríl­mánuði og nálgast óð­fluga 2% mark­mið seðla­bankans.

Vextir hafa nú þegar verið lækkaðir í Sviss, Sví­þjóð, Tékk­landi og Ung­verja­landi á árinu vegna hjaðnandi verð­bólgu. En vextir hafa verið ó­breyttir á stærstu efna­hags­svæðum heims líkt og fyrr segir.