Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa samþykkt að lækka fasteignaskatta í bæjarfélaginu . Mun skatturinn á næsta ári því vera 0,281% á íbúðarhúsnæði, 1,32% á opinberar stofnanir og 1,45% á annað húsnæði, þar með talið atvinnuhúsnæði.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda (FA), fagnar þessari ákvörðun bæjarstjórnar Vestmannaeyja. Bæjaryfirvöld séu þannig að svara áskorun stjórnar FA frá því í byrjun júní síðastliðinn um að sveitarfélögin lækki álagningarprósentu fasteignaskatts á atvinnuhúsnæði við gerð fjárhagsáætlana fyrir næsta ár til að bregðast við miklum hækkunum fasteignamats fyrir árið 2022.

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti í síðustu viku tillögu bæjarráðs um að lækka álagningarprósentuna á atvinnuhúsnæði á næsta ári úr 1,55% í 1,45%. Það er önnur lækkunin á jafnmörgum árum, en í fyrra var skatturinn lækkaður úr 1,65%. Í fundargerð bæjarráðs segir að með þessu sé komið í veg fyrir að hækkun fasteignamats auki álögur Vestmannaeyjabæjar á íbúa og fyrirtæki. FA fagnar þessari ákvörðun Eyjamanna og vonar að fleiri sveitarfélög fylgi í kjölfarið,“ segir Ólafur.