Vilhelm Már Þorsteinsson, forstjóri Eimskips, færði í dag 38.869 hluti í Eimskipi, sem eru 17,4 milljónir króna að markaðsvirði, af eigin nafni yfir í félagið sitt Sjávarlind.

Fyrir átti Sjávarlind 193.511 hluti í Eimskip sem eru að hluta fjármagnaðir með bankaláni. Félagið, sem Vilhelm Már á 100% hlut í, setur hina framseldu hluti að handveði til tryggingar greiðslu lánsins.

Í Kauphallartilkynningu Eimskips vegna viðskiptanna er vísað í eldri tilkynningar frá desember 2021 þegar Vilhelm Már jók hlut sinn í flutningafélaginu fyrir 50,8 milljónir króna og voru þau viðskipti fjármögnuð með bankaláni þar sem 200.000 hlutir voru settir að handveði til tryggingar greiðslu þess.

Sjávarlind á eftir viðskiptin í dag 232.380 hluti í Eimskipi sem eru 104 milljónir króna að markaðsvirði miðað við 448 króna dagslokagengi Eimskips. Vilhelm Már á enga hluti í Eimskipi á eigin nafni eftir viðskiptin en á kauprétt að 197.100 hlutum.

Hlutabréfaverð Eimskips stendur nú í 448 krónum á hlut og hefur lækkað um 11,5% í ár.