Farsímanotkun undir stýri getur haft áhrif á bótarétt ökumanna í bílslysamálum að sögn Hrefnu Sigurjónsdóttur, verkefnastjóra forvarna hjá Sjóvá.

Ef stjórnandi ökutækis notar farsíma eða snjalltæki án handfrjáls búnaðar við akstur er lögreglunni heimilt að sekta ökumann um 40.000 krónur og 1 refsipunkt í ökuferilsskrá. Hrefna nefnir að þessi sekt mætti mögulega vera hærri í takt við alvarleika, verðlagsþróun og aðrar sektir.

„Um þessar mundir er til dæmis verið að sekta fólk fyrir að aka um á nagladekkjum eftir miðjan maí og þar er sektin 20.000 krónur á hvert dekk sem gera þá iðulega 80.000 króna sekt. Færa má rök fyrir því að meiri hætta sé fólgin í því að aka undir áhrifum farsímans,“ segir Hrefna.

Rannsóknarnefnd samgönguslysa birti á dögunum skýrslu um slys sem varð á Suðurlandi á síðasta ári þar sem ungur ökumaður lét lífið. Talið er líklegt að skert athygli ökumanns vegna farsímanotkunar hafi vegið þungt í tildrögum slyssins en rannsókn leiddi í ljós að hann hafði notað farsímann rétt áður en slysið varð.

„Ef stjórnandi ökutækis veldur slysi og í ljós kemur að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi eins og að nota farsíma, snjalltæki eða önnur raftæki sem truflað geta akstur án handfrjáls búnaðar þá getur það haft áhrif á bótarétt. Dómstólar og úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hafa slegið því föstu að ólögleg notkun farsíma undir stýri telst stórfellt gáleysi sem getur haft í för með sér skerðingu bótaréttar eða jafnvel að þær verði felldar alveg niður. Sama gildir um kaskó.“

Árlega látast eða slasast alvarlega um 200 manns í umferðinni og segir Hrefna það gríðarlega mikilvægt að ökumenn axli ábyrgð, hafi fulla athygli við aksturinn og fari varlega í umferðinni.