Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, áforma að hækka leiguverð umfram verðlag á næsta ári því er segir í nýrri fjárhagsspá félagsins fyrir tímabilið 2024-2028. Félagsbústaðir leigja nú út 3.047 íbúðir en það telst vera ríflega 5% af heildarfjölda íbúða í Reykjavík.

„Til að ná markmiðum um sjálfbærni er gert ráð fyrir að leiguverð verði hækkað innan ársins að því marki sem þarf til að tryggja sjálfbærni,“ segir í fjárhagsspánni.

Bent er á að í samþykktum um Félagsbústaði sé gert ráð fyrir að reksturinn sé sjálfbær, skili jákvæðri breytingu á handbæru fé öll ár áætlunar, m.ö.o. að veltufé frá rekstri nægi fyrir afborgunum langtímalána ár hvert.

Félagsbústaðir áætla að greiðslubyrði lána nemi 2.875 milljónum króna árið 2024 en þar af eru ætlaðar afborganir af langtímalánum um 1.606 milljónir króna. Veltufé frá rekstri er áætlað um 1.647 milljónir króna á næsta ári.

„Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri aukist 2025 til 2028 og að það dugi fyrir afborgunum langtímalána öll árin.“

Í fjárhagsspánni er áætlað að leigutekjur aukist um 12,3% á milli áranna 2023 og 2024, sem skiptist á milli 4,9% hækkunar vegna verðlagsbreytinga og um 7,4% vegna magnaukningar, sem er bæði komin til vegna stækkunar eignasafnsins og fyrirhugaðrar hækkunar á leigu umfram verðlag í júní 2024.

Veltufé frá rekstri standi að óbreyttu ekki undir afborgunum

Áform Félagsbústaða um hækkun leiguverðs kemur í kjölfar þess að endurskoðuð fjárhagsáætlun 2023 hjá Félagsbústöðum gerði ekki ráð fyrir að veltufé frá rekstri standi undir afborgunum langtímalána, líkt og segir í skýrslu fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar sem var lögð fram samhliða birtingu árshlutauppgjörs fyrir rúmum mánuði.

„Í því ljósi er mikilvægt að leita leiða til að styrkja rekstrargrundvöll félagsins þannig að tekjur félagsins standi undir rekstrarkostnaði og afborgunum lána til framtíðar,“ sagði fjármála- og áhættustýringarsviðs borgarinnar.