Controlant tryggði sér samtals 80 milljóna dala fjármögnun, eða sem nemur 11 milljörðum króna, í fyrra. Hún fólst annars vegar í 40 milljóna dala fjármögnun sem leidd var af Gildi lífeyrissjóði með þátttöku annarra lífeyrissjóða ásamt einkafjárfestum og núverandi hluthöfum og hins vegar 40 dala milljóna lánsfjármögnun frá breska sjóðinum Apax Credit.

Á aðalfundi í byrjun þessa mánaðar veittu hluthafar stjórn Controlant heimild fyrir frekari hlutafjáraukningu um allt að 50 milljónir dala, eða allt að 7 milljarða króna.

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, gerir ráð fyrir að félagið sæki sér aukið fjármagn í náinni framtíð. Félagið er með augun á að grípa vaxtartækifæri með auknu vöruframboði og framangreindri markaðssókn.

Tækni Controlant nái alveg niður í neytendapakkningar

Hann flokkar tekjumöguleika Controlant í grófum dráttum í þrennt. Næstu 12-18 mánuði horfir félagið á að ná kjarnalausnum sínum til stærri hluta af starfsemi núverandi viðskiptavina og með samningum við önnur stór lyfjafyrirtæki.

Til meðallangs tíma er horft til viðbóta ofan á núverandi lausnir sem munu sem dæmi gera lyfjafyrirtækjum kleift að nota vörurnar víðar, t.d. við klínískar rannsóknir og við vöktun á spítölum.

Langtímaverkefnið er að þróa vöruna Saga Card, en sambærileg IoT-vara er ekki til á markaði í dag. Hugmyndin er að fara með tækni Controlant alveg niður í neytendapakkningar á lyfjum til þess að gefa yfirsýn yfir ástand lyfja alveg frá framleiðslustað og þangað sem lyfin eru notuð.

„Við erum með stóran og þéttan kúnnahóp sem starfar á sama markaði. Við höfum unnið með þessum stóru lyfjafyrirtækjum í að greina helstu vandamál, þarfir og flöskuhálsa í aðfangakeðjunni. Þetta hjálpar okkur að þróa lausn sem getur leyst stór framtíðarvandamál og stuðlað að því að útrýma sóun í allri virðiskeðjunni.“

Fréttin er hluti af viðtali við Gísla í Viðskiptablaði vikunnar. Þar ræðir hann um gríðarleg vaxtartækifæri í kjarnastarfsemi Controlant og háleit markmið félagsins til framtíðar.