Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur SAF, segir að sívaxandi eftirspurn sé eftir tölulegum upplýsingum og gögnum varðandi vægi ferðaþjónustu í sveitarfélögum og um hvað atvinnugreinin þýðir í raun fyrir byggðir og bú landsins.

Diljá Matthíasardóttir, hagfræðingur SAF, segir að sívaxandi eftirspurn sé eftir tölulegum upplýsingum og gögnum varðandi vægi ferðaþjónustu í sveitarfélögum og um hvað atvinnugreinin þýðir í raun fyrir byggðir og bú landsins.

Diljá Matthíasdóttir.
Diljá Matthíasdóttir.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Hinar ýmsu stofnanir hafa unnið að því að birta svæðisbundin gögn í auknum mæli,“ segir Diljá. „Ferðagögn SAF eru unnin í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Expectus og tekur saman þessar upplýsingar um ferðaþjónustu hringinn í kringum landið og birtir þær með myndrænum og markvissum hætti. Þannig nýtast Ferðagögn meðal annars opinberum aðilum, starfsfólki í stjórnsýslu og stofnunum og kjörnum fulltrúum á Alþingi og í sveitarstjórnum. Ásamt rekstraraðilum ferðaþjónustufyrirtækja og fjárfestum til að glöggva sig betur á vægi atvinnugreinarinnar.“

Aukin lífsgæði heimamanna

Vægi ferðaþjónustu er misjafnt eftir landshlutum og sveitarfélögum en ljóst er að atvinnugreinin er orðin traust stoð hvert sem litið er hér á landi. Sú eftirspurn sem myndast hefur eftir tölulegum upplýsingum eins og birtast í Ferðagögnum er líklega að mestu leyti tilkomin vegna þess hve hratt íslensk ferðaþjónusta hefur tekið stakkaskiptum á síðastliðnum áratug. Enda er atvinnugreinin nú orðin sú grein sem skilar þjóðarbúinu einna mestum útflutningstekjum og flestum nýjum störfum.

Verðmætasköpun, og það skattspor sem henni fylgir, hefur því aukist svo um munar um land allt. Atvinnugreinin hefur aukið fjölbreytni atvinnutækifæra, fjölgað störfum og stuðlað að auknum lífsgæðum íbúa. Þannig má horfa á ferðaþjónustu sem eina stærstu byggðaaðgerð Íslandssögunnar.

Vægi ferðaþjónustu um land allt

Á meðal þeirra svæðisbundnu gagna sem finna má í Ferðagögnum eru tölulegar upplýsingar Hagstofunnar um atvinnutekjur. Þau segja til um hvaða atvinnugreinar standa undir tekjum íbúa eftir landshlutum og sveitarfélögum og varpa því ljósi á vægi atvinnugreina á viðkomandi svæðum.

Hlutur einkennandi greina ferðaþjónustu af atvinnutekjum á landinu öllu var 7,5% árið 2012 en er nú orðinn 10,7% tíu árum síðar. Þegar litið er til landshluta má sjá að mikil uppbygging ferðaþjónustu hefur átt sér stað í þeim öllum á síðastliðnum áratug.

Suðurland stendur upp úr með mestan vöxt frá árinu 2012, þar sem hlutfall ferðaþjónustu af atvinnutekjum hefur aukist um 130%. Sú þróun kemur ekki á óvart enda landfræðileg lega, eldgos í Eyjafjallajökli og koma áhrifavalda sem hefur meðal annars laðað ferðamenn að Suðurlandi í stórum stíl. Hins vegar þegar litið er til allra landshluta er hæsta hlutfall ferðaþjónustu af atvinnutekjum á Suðurnesjum, eða um 25% árið 2022, þar sem Keflavíkurflugvöllur og stórir einstakir rekstraraðilar á svæðinu leika lykilhlutverk.

Fjallað er um málið afmælisblaði Samtaka ferðaþjónustunnar, Samtaka í 25 ár. Áskrifendur geta lesið greinina í heild hér.