Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 131 þúsund í janúar og því aðeins fleiri en í sama mánuði í fyrra þegar þeir voru 121 þúsund. Fjórði ársfjórðungur síðasta árs var fjölmennasti fjórði ársfjórðungur frá upphafi en í heildina var árið ekki eins stórt og metárið 2018.

Þetta kemur fram í greiningu Landsbankans en þar segir meðal annars að fjöldi ferðamanna í janúar hafi fækkað, meðal annars vegna jarðhræringa á Reykjanesskaga.

Þó að ferðamönnum hafi fjölgað um 8% milli ára í janúar dróst erlend kortavelta á föstu gengi saman um 3,8%. Veltan á hvern ferðamann var því töluvert minni í janúar nú en fyrir ári og dróst saman um 11%.

Í desember mátti einnig sjá sömu þróun, en þá fjölgaði ferðamönnum um 19% á sama tíma og kortaveltan dróst saman um 8,6%.

Skráðar gistinætur hafa aldrei verið jafn margar og í fyrra en þeim fjölgaði milli ára alla mánuði ársins, að desember undanskildum þrátt fyrir að ferðamenn í desember hafi verið 20% fleiri en árið áður.

„Jarðhræringarnar á Reykjanesskaga virðast hafa haldið lítillega aftur af komu ferðamanna. Hins vegar er ólíklegt að þær hafi haft áhrif á breytta neysluhegðun. Kortaveltutölur síðustu tveggja mánaða og gögn yfir gistinætur í desember benda til þess að ferðamenn dvelji skemur og eyði því minna en mánuðina á undan,“ segir jafnframt í greiningu.