Gunnar Jakobsson, fráfarandi varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, segist líta svo á að um þessar mundir sé nokkuð heppilegur tími fyrir mannabreytingar í sínu embætti. Hann sé ekki að hlaupa frá hálfkláruðu verki eins og það horfir við honum.

„Mér finnst ég hafa skilað mínu. Ég held að það sé óhætt að fullyrða að fjármálastöðugleiki hefur aldrei staðið betur heldur en núna,“ segir hann ákveðinn. Þrátt fyrir róstursamt tímabil, svo vægt sé til orða tekið, nánast frá fyrsta degi skipunartíma síns hafi íslenska fjármálakerfið staðið fádæma tryggum fótum, og aðgengi að lánsfé sé með besta móti. „Það er auðvitað dýrt, en það er ekki skortur á vilja hjá bönkunum til þess að lána.“

Þótt verðbólga sé enn vel yfir markmiði og hafi reynst einkar þrálát bendi allt til þess að toppnum hafi þegar verið náð, enda raunstýrivextir ekki verið hærri í vel á annan áratug. „Það hlýtur að leiða til þess að það fari að hægja á að lokum. Þegar raunvextir eru orðnir þetta háir þá getur það ekki annað en komið fram á endanum.“

Auk stöðugleikans séu svo mörg af þeim málum sem hann hafi verið að vinna að komin á góðan rekspöl innan bankans, sem hann hafi fulla trú á að muni taka við keflinu og leiða þau áfram.

Má þar einna helst nefna tvær tækninýjungar í starfsemi seðlabanka sem reyndar tengjast að nokkru leyti: smágreiðslulausn og seðlabankarafeyri. Þótt gagnrýnisraddir hafi heyrst um hvort tveggja telur Gunnar um þjóðþrifamál að ræða í báðum tilfellum og efast ekki um að takast muni að finna lausnir í sem víðtækastri sátt.

Ekki svarthvítar ákvarðanir

„Ég treysti nefndinni fullkomlega til að taka þær ákvarðanir sem til þarf og stýra þessu í sæmilega lendingu þegar þar að kemur,“ segir hann um yfirvofandi vaxtalækkunarferli Peningastefnunefndar, sem nú er útlit fyrir að hann muni sjálfur ekki ná að taka þátt í, en hefur nú í tvígang einn nefndarmanna talið tímabært að hefja.

„Það hlýtur að vera ástæðan fyrir því að við erum með nefnd, að innan hennar geti þrifist og mæst skiptar og ólíkar skoðanir. Þetta eru ekki svarthvítar ákvarðanir: Þú ert ekki 100% sannfærður um eitt eða annað. Þess vegna tel ég að það sé mjög mikilvægt fyrir nefndina að það sé verið að toga í báðar áttir,“ segir hann og bendir á að í upphafi vaxtahækkunarferlisins haustið 2021 hafi hann verið hinum megin við meirihluta nefndarinnar, viljað hækka vexti meira.

„Þegar upp er staðið byggir þetta bara á ólíku mati nefndarmanna á þeim aragrúa gagna sem til grundvallar hverri vaxtaákvörðun liggja. Þá er ekki óeðlilegt að nefndarmenn með mismunandi bakgrunn komist stundum að eilítið ólíkri niðurstöðu.“

Nánar er rætt við Gunnar í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.