Bandaríska lággjaldaflugfélagið Allegiant Air verður á vörum margra þessa helgi en Ofurskálin verður haldin í leikvangi í Las Vegas sem ber nafn flugfélagsins, Allegiant Stadium.

Allegiant Air var einnig í þriðja sæti í árlegri könnun Wall Street Journal um níu bestu flugfélög Bandaríkjanna. Það er hæsta einkunn sem flugfélagið hefur fengið en Allegiant Air, sem er með höfuðstöðvar sínar í Las Vegas, var jafnframt minnsta flugfélagið á listanum.

Viðskiptavinir þurfa, líkt og hjá öðrum lággjaldaflugfélögum, að greiða aukalega fyrir töskur og þjónustu um borð en segjast þó sætta sig við gjöldin. Farþegar eru orðnir vanir þessu fyrirkomulagi og virðast leggja meiri áherslu á skilvirkni og þjónustu.

„Ég get séð hvern einasta hlut sem ég borga fyrir, eins og auka sæti. Mér finnst kostnaðurinn vera mjög sanngjarn,“ segir Krista Wrightsman, 31 árs markaðsfræðingur frá Cincinnati.

Annað sem viðskiptavinir virðast vera hrifnir af er að Allegiant flýgur beint á áfangastaði. Það þýðir að þeir sleppi við þreytandi millilendingar sem eykur líkurnar á því að eitthvað fari úrskeiðis með ferðalagið.

Allegiant flýgur til að mynda beint frá Bismarck í Norður-Dakóta til St. Pete-Clearwater í Flórída og til smærri borga eins og Omaha í Nebraska og Austin í Texas. Stjórnendur segja að þessi stefna á smærri borgir og flugvelli veiti flugfélaginu forskot yfir flugfélög eins og Frontier og Spirit, sem eltast við stærri markaði.

Árið 2023 þurfti Allegiant einnig aðeins að aflýsa 1% af flugferðum sínum og mættu 72,8% af öllum flugvélum þeirra á réttum tíma.