Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins, minnkaði hlut sinn í fasteignafélaginu í gær en Kauphöllin tilkynnti um viðskiptin opinberlega í dag.
Í apríl, áður en Halldór tók við forstjórastöðunni, keypti hann 8 milljónir hluta, eða um 0,44% eignarhlut í Regin, með framvirkum samningi á genginu 25,4 krónur á hlut
Dagslokagengi Regins í gær var 22,6 krónur en gengið hefur lækkað um 18% á árinu og um 13% síðan í apríl.
Samkvæmt Kauphallartilkynningu seldi Halldór fimm milljónir hluta í Reginn í gegnum félag sitt Optio ehf. á genginu 22,2 krónur í gær.
Hefur enn mikla trú á félaginu
Um 111 milljón króna viðskipti er að ræða en samhliða sölunni leysti Halldór til sín þrjá milljón hluti á sama gengi sem samsvarar ríflega 67 milljónum króna.
Í samtali við Viðskiptablaðið segir Halldór að krefjandi markaðsaðstæður og hækkandi vextir leiddu til þess að hann hafi ákveðið að loka framvirka samningnum og gera upp tapið tengt honum.
„Ég hef enn gríðarlega trú á félaginu og held eftir bréfum í því,“ segir Halldór og bendir á uppgjör þriðja ársfjórðungs sem birtist á fimmtudaginn sé því til stuðnings.